Greiðsluaðlögun einstaklinga

Miðvikudaginn 16. júní 2010, kl. 17:33:57 (0)


138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[17:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa komið hingað upp í atkvæðaskýringu hvað varðar það að hér erum við bara að samþykkja sértækar aðgerðir, sem eru reyndar ekki alveg í samræmi við norræna velferðarmódelið en þar er lögð áhersla á almennar aðgerðir fyrir alla sem hafa lent í svipuðu áfalli, t.d. forsendubresti. Þetta eru allt brýnar aðgerðir eða úrræði sem við erum að samþykkja, þótt þau séu sértæk, en þau munu engan veginn duga til þess að aðstoða alla þá 22.000 einstaklinga sem eru komnir á vanskilaskrá.

Frú forseti. Það eru mikil vonbrigði að þingið hafi enn ekki samþykkt almenna leiðréttingu lána til að endurheimta þótt ekki væri nema hluta af þeirri eignarýrnun sem verðtryggingin hefur valdið fólki sem hefur ekki unnið sér neitt annað til saka en að kaupa sér þak yfir höfuðið og fjölskyldubíl. (Gripið fram í: Hárrétt.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)