Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 06. september 2010, kl. 15:47:39 (0)


138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það svarar þó ekki þeirri spurningu hvers vegna ekki var hægt að verða við beiðni hv. þingmanns um það að vita hversu margir starfsmenn eru í undirstofnunum. Mér finnst það með ólíkindum ef hv. þingmenn, sem eru að vinna við lagafrumvörp, geta ekki fengið svo einfaldar upplýsingar. Það veldur mér miklum áhyggjum að ekkert skuli vera að breytast í þessu. Oft á tíðum er fyrirspurnum, bæði munnlegum og skriflegum, ekki svarað og snúið út úr öllu.

Hv. þingmaður kemur inn á það hvort frekar hafi verið rætt um tímapressuna í þessu máli. Þegar málið var rætt hér síðasta vor var talað um að sumarið yrði nýtt til samráðs og málið yrði afgreitt á því þingi sem við sitjum núna, ráðherraskiptin hefðu því í sjálfu sér ekki átt að hafa áhrif á það. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvernig vinnan hafi verið í sumar í hv. allsherjarnefnd.