Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 06. september 2010, kl. 17:27:23 (0)


138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:27]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Síðan árið 1917 hafa setið hér við völd 41 ráðuneyti. Núverandi ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur er það 41. í röðinni. Þessi ráðuneyti hafa verið skipuð frá þremur til tólf ráðherrum gegnum tíðina. Þeir hafa kennt sig við hin aðskiljanlegustu mál allt eftir þörfum hvers tíma og mati stjórnmálamanna á hverjum tíma á því hvaða mál væru forgangsmál í þjóðfélaginu. Við höfum haft flugmálaráðherra og orkumálaráðherra, verslunarmálaráðherra, kirkjumálaráðherra, atvinnumálaráðherra, vegamálaráðherra, kennslumálaráðherra, verðlagsmálaráherra og yfirleitt ráðherra í öllum málaflokkum nema þá helst kannski í vandamálum.

Í morgun heyrði ég úr ræðustól Alþingis talað um dóms- og samgönguráðherra. Á mínum stutta ferli hef ég bara vanist því að heyra talað um dóms- og mannréttindamálaráðherra. Ég veit ekki hvað hefur orðið um mannréttindin á þessu þróunarskeiði.

Það sem ég vil benda á er að stjórnsýslan er breytingum háð. Alveg eins og þjóðfélagið breytist endurspegla stjórnsýslan og Stjórnarráð Íslands þarfir og áherslur í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Nafngiftir á ráðherrum skipta sáralitlu máli. Það er kannski til glöggvunar, svo maður fari ekki að kvarta undan biskupnum við vegamálaráðherrann. Það er ágætt að aðgreina þetta svo maður viti hér um bil hvað þessir háu og hæstv. herrar eru að bedrífa. Allt gott um það.

Nú er málið þannig vaxið að hver forsætisráðherra hefur fullkomna heimild til að skipa ráðuneyti sitt eins mörgum ráðherrum og honum sýnist. Það þarf enga sérstaka lagabreytingu til. Það er hægt að setja upp ríkisstjórn með þremur ráðherrum, tveimur, hugsanlega einum. Það þarf ekki neinar lagabreytingar til, eins og hægt er að sanna með því að hér er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ráðuneytum sem búið er að fjalla um í allsherjarnefnd. Þetta mál er óafgreitt af þinginu. Það er komið í gegnum allsherjarnefnd fyrir einhverja handvömm sem meiri hluta allsherjarnefndar finnst greinilega í lagi. Hvernig það hefur viljað til er ofvaxið mínum skilningi.

Nema hvað. Í millitíðinni hefur það gerst að ríkisstjórn Íslands hefur verið stokkuð upp. Það er búið að fækka ráðherrum, sameina ráðuneyti og það hefur enga lagabreytingu þurft til þess arna. Svo stöndum við hér og ræðum um að á eftir orðinu fjármálaráðuneyti kemur innanríkisráðuneyti. Ég meina, hvers lags ruglvinna er þetta? Ef lög eru sett er grundvallarreglan þessi, og það ætla ég að vona að allir sem gefa sig út fyrir að starfa í pólitík viti: Lög á aldrei nokkurn tíma að setja nema nauðsyn beri til. Það ber enga nauðsyn til að setja þessi lög. Þau eru vanhugsað rugl.

Þetta eru ekki stór lög að umfangi, aðeins tvær greinar og ákvæði til bráðabirgða. Síðan kemur tíu síðna greinargerð sem er í raun og veru alveg sprenghlægileg lesning ef maður hefur þess konar húmor. Greinargerðin er prýðileg almenn umfjöllun um að hugsanlega sé sniðugt að sameina ráðuneyti, að hugsanlega sé sniðugt að endurskipuleggja stjórnsýslu og spara peninga o.s.frv. Allt gott um það. En það kemur bara lagagreinunum ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Hitt er svo annað mál, sem virðist ekki mega nefna, að aðstæður á Íslandi hafa á undanförnum árum breyst hraðar en yfirleitt gerist í þjóðfélagi. Við höfum orðið fyrir svonefndu hruni og þá þykir ástæða til að endurskoða stjórnsýsluna. Í frumvarpinu er ekkert sem leiðir af þeirri endurskoðun sem þegar hefur farið fram. Þar að auki er ekki tekið tillit til þess að núna er meiri endurskoðun í gangi og henni er fjarri því lokið. Þingmannanefnd hefur ekki skilað af sér. Enginn veit hvað kemur út úr vinnu hennar nema að við getum kannski tekið aðra atrennu og haldið áfram að breyta lögum sem engin þörf er til að breyta.

Ég tek heils hugar undir það að við eigum að endurskipuleggja stjórnsýsluna til að samræmast kröfum okkar tíma eins og best við getum. Ég hef sjaldan orðið hrifnari af slagorði nokkurs stjórnmálaflokks en fyrir einhverjum áratugum þegar Sjálfstæðisflokkurinn, má ég segja, gekk til kosninga undir slagorðinu Báknið burt. Þetta finnst mér eitthvert besta og jákvæðasta kosningaslagorð sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki fengið þessu áorkað vegna þess að báknið hefur vaxið um mikinn mæli án þess að skilvirknin hafi aukist að sama skapi.

Það sem skiptir okkur máli er að stjórnsýslan í landinu, að Stjórnarráð Íslands þjóni sem best hagsmunum landsmanna, ekki hagsmunum þeirra sem vinna í ráðuneytunum eða sitja um langan eða skamman tíma í ráðherrastólum eða þjóni hagsmunum stjórnmálaflokkanna heldur hagsmunum fólksins í landinu sem borgar fyrir þá þjónustu sem ráðuneyti eða stjórnarráð eiga að veita.

Í allri umræðunni um skipulagsbreytingar finnst mér að við ættum að reyna að vanda okkur ofurlítið. Það er nauðsynlegt að breyta skipulagi á fjölmörgum sviðum hér á landi. Það er fullkomlega eðlilegt að ríkisstjórn sem þjáist af innanmeinum þurfi að endurskipuleggja sig, það þurfi að skipta út ráðherrum. Það getur meira að segja hent í ríkisstjórnum sem ekki þjást af neinum innvortis þrautum. Það er allt gott með það enda þarf ekki að setja nein lög til að gera slíkt mögulegt, eins og dæmin sanna. Hins vegar er nú þegar að störfum nefnd um heildarendurskipulagningu eða heildarbreytingar á núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég geri það að tillögu minni að sú nefnd fái vinnufrið og skili af sér þeim skynsamlegustu tillögum sem hún getur komið með. Enn fremur að hæstv. forsætisráðherra endurskipuleggi og endurmanni ríkisstjórn sína nákvæmlega eins og henni og samstarfsaðilum hennar hentar án þess að rugla í einhverjum lagabreytingum í því sambandi.

Við skulum hafa hugfast grundvallaratriðið sem er grundvallarskylda stjórnmálamanna: Lög eru ekki eitthvað sem maður leikur sér með. Maður setur ekki lög bara til að gá hvernig þau virka eða bara af því að maður hefur meiri hluta til að gera það. Maður setur lög af nauðsyn og af nauðsyn eingöngu. Við sitjum uppi með allt of mikið af lögum sem eru fullkomlega óþörf, heimskuleg, illa unnin og til óþurftar. Við eigum að hverfa af þeirri braut, við eigum að vinna vinnuna okkar betur.

Ég segi fyrir mína parta, verandi í allsherjarnefnd þar sem þetta skrípafrumvarp fór í gegn, uppáskrifað af meiri hluta nefndarinnar, að mig langar til að vanda þá vinnu sem ég inni af hendi bæði í nefndinni og í þingsal. Hafandi bent á hvað eftir annað að það er engin nauðsyn til að setja lögin, hafandi bent á að það er nauðsynlegt að gera breytingar, hafandi bent á að unnið er að heildstæðu frumvarpi um breytingarnar, þá sting ég upp á því að frumvarpið verði látið hverfa, að það týnist og gleymist og ég skal lofa að minnast aldrei framar á það. Ég hélt að ríkisstjórn Íslands hefði mikilvægari hnöppum að hneppa en að standa í rugli eins og að setja lög um nafngiftir. Hún hefur fullkomna heimild til að skíra störf sín hverju því nafni sem henni hentar. Þá kem ég aftur að því ráðuneyti sem aldrei hefur verið skipað í sögu íslenska stjórnarráðsins og þar er vandamálaráðuneytið sem ég held að ríkisstjórnin ætti að drífa í að koma á laggirnar sem allra fyrst.

Ég mun ekki leggjast á móti frumvarpinu vegna þess að mér finnst öðrum þræði, eins og ég hef þegar sagt, ákveðinn húmor í því. Það er að vísu svartur húmor en ég mun ekki leggjast gegn frumvarpinu heldur sitja hjá við afgreiðslu þess.