Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 06. september 2010, kl. 17:41:51 (0)


138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:41]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni kærlega fyrir ræðu hans. Ég hygg að mjög margir hér gætu tekið undir flest orð sem þar féllu. Verst þótti mér þó að hæstv. forsætisráðherra skyldi ekki vera í salnum til að hlusta á ádrepuna sem hér var flutt. (Gripið fram í.) Já, hún hlýtur að gera það, hæstv. forsætisráðherra, enda fylgist hún örugglega vel með því sem hér fer fram.

Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður sagði að eitt besta slagorð sem um getur í pólitískri sögu Íslands er Báknið burt. Hitt er svo annað mál að mikið hefði ég viljað sjá árangurinn meiri af því slagorði.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, nú þegar unnið er að fækkun ráðuneyta, hvort heldur með breytingum á lögum eða reglugerð, að við stöndum frammi fyrir því að samþjöppun valds verði of mikil. Nefni ég að nú er stefnt að því að búa til eitt ráðuneyti velferðarmála sem fer með u.þ.b. 50% af öllum ríkisútgjöldum. Ég hygg að það sé kannski í andstöðu við hugmyndir okkar um valddreifingu, að færa jafnmikið vald undir einn hatt, ég tala nú ekki um þegar við vitum að sjálfstæði löggjafans er ekki meira en raun hefur borið vitni undanfarin ár. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann hafi ekki meiri áhyggjur af því heldur en hvort við spörum einhverjar krónur og aura og hvort þetta geti ekki leitt til þess að við sjáum fram á verri stjórnsýslu og (Forseti hringir.) samþjöppun valds, sem við í þessum sal hljótum að berjast gegn.