Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 07. september 2010, kl. 12:30:36 (0)


138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara fá að geta þess hér í stuttu andsvari, vegna þeirrar gagnrýni sem kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að í störfum mínum sem formaður allsherjarnefndar hef ég alltaf reynt að bregðast við því ef nefndarmenn hafa óskað eftir því að fleiri gestir kæmu á fund nefndarinnar. Í þessu máli var engri slíkri ósk frá nefndarmönnum neitað. Hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd hefði verið í lófa lagið að bera fram slíkar óskir. Hv. þingmaður verður einfaldlega að óska eftir upplýsingum frá flokksmönnum sínum um það hvers vegna þeir óskuðu ekki eftir því að fleiri gestir kæmu á fund nefndarinnar. Það hlýtur að vera eitthvað sem hv. þingmaður getur afgreitt á þingflokksfundi hjá Sjálfstæðisflokknum.

Það komu jafnframt engar óskir fram um það í störfum nefndarinnar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að málið færi fyrir fagnefndir. Það kom hins vegar fram hér, undir liðnum fundarstjórn forseta í gær í þinginu, og brást ég vel við því og hef þegar sett það mál í farveg.

Nú er málinu þannig háttað hér í þinginu, með umræðum og þátttöku þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, að sá grunur læðist að manni að framganga Sjálfstæðisflokksins í þessu máli snúist ekki um efnisatriði, enda flytja þeir engar tillögur, engar hugmyndir og hafa enga skoðun aðra en þá að e.t.v. sé ástæða til endurskoðunar á Stjórnarráðinu. Þá læðist að manni sá grunur að það vaki ekkert annað fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en að tefja málið. Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkurinn í þessu máli? Hvað vilja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera í þessu máli?