Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 07. september 2010, kl. 12:41:58 (0)


138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra tala af þvílíkri vanvirðingu um hv. þingmenn, að nota það orðalag að þingmenn hafi ekki rænu til að gera eitt og annað. Að þingmenn hafi ekki rænu — þetta er mjög fallegt orðalag af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni. Ég vona þá að allir hafi rænu til að hlusta á það að það var nú reyndar þannig — og hvorki ég né hæstv. ráðherra eigum sæti í allsherjarnefnd — að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, Ólöf Nordal, ítrekaði þessa beiðni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í nefndinni. Það er þá kannski formaður nefndarinnar sem hefur ekki verið þannig stemmdur að hann hafi tekið mark á þeirri beiðni.

Ég get fullvissað hæstv. utanríkisráðherra um að ástandið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins er stórgott, afbragðsgott. Það er nú eitthvað annað en kemur fram hjá honum sjálfum þegar hann, í frammíkalli í umræðum um störf þingsins, játaði það og viðurkenndi í allra eyru að ríkisstjórnin, sem við því miður búum við, sé ekki neitt annað en minnihlutastjórn. Þannig að ég get alveg ímyndað mér að ástandið þar sé nú ekkert sérstaklega gott.

Nú erum við að tefja þingstörf, er alltaf sagt. Má ég minna á hversu litla umfjöllun þetta mál hefur fengið í þingsal. Ég veit ekki betur en að við 1. umr. hafi verið samið um að það færi hratt í gegn. Ég man hreinlega ekki hvort einn eða tveir töluðu af hálfu Sjálfstæðisflokksins við 1. umr. málsins. Við erum hérna í 2. umr., ég held að ég sé fjórði þingmaður flokksins — gæti verið fimmti, ég get flett því upp á milli andsvara — sem tekur til máls í þessari umræðu. Ég hef 20 mínútur til þess að ræða um þetta mál og ég neita því með öllu að hálfsdagsumræða á Alþingi Íslendinga um breytingar á Stjórnarráðinu sé kölluð málþóf. (Forseti hringir.)