Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 07. september 2010, kl. 14:51:22 (0)


138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð ekki var við svar í þessu andsvari, kannski hef ég ekki tekið eftir. Hv. þingmaður segir að við eigum að skoða skýrslu rannsóknarnefndarinnar betur. Hv. þingmaður fer líka yfir að mjög mikilvægt sé að setja atvinnuvegaráðuneyti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að ekki er gert ráð fyrir því að við samþykkjum atvinnuvegaráðuneyti nú. Það er ekki í frumvarpinu. Það getur vel verið að það sé mjög skynsamlegt. Ég held að margt bendi til þess.

Ég vil vekja athygli á röksemdunum um að ráðuneytin séu lítil og þar af leiðandi ekki nógu sterk. Menn fara ekki eftir því ef þeir trúa að það sé vandinn. Ég vil hvetja hv. þingmann til að kynna sér stærð og umfang ráðuneytanna. Er verið að sameina iðnaðarráðuneytið sem er með 1% af ríkisútgjöldum? Nei. Er verið að sameina efnahags- og viðskiptaráðuneytið sem er minna en 1%? Nei. Forsætisráðuneytið? Nei. Það er verið að sameina stærstu ráðuneytin. Er einhver hugsun í því? Hafa menn eitthvað lagt til grundvallar því að það sé skynsamlegt? Ætla menn að fara eitthvað yfir það hvernig ráðherra þurfi að haga sér og sínum störfum í því ráðuneyti? Það verður allt annað að vera með 52% af ríkisútgjöldunum sem er risaráðuneyti. Menn líta til útlanda og segja: Heyrðu, þetta er ekkert stórt miðað við útlönd. Þar eru menn með allt aðrar forsendur. Menn eru með aðstoðarráðherra og alls konar hluti þegar þeir eru með stór ráðuneyti. Hér ætla menn að halda dvergráðuneytunum, virðulegi forseti. Dvergráðuneytunum er haldið, en stóru ráðuneytin eru sameinuð.

Var ekki sagt í rannsóknarnefndarskýrslunni að styrkja ætti Alþingi og Alþingi ætti að vanda sig betur? Erum við að vanda okkur núna? Heldur einhver því fram? Segir hv. þingmaður að þetta sé boðleg vinna, að láta ekki einu sinni heilbrigðisstéttirnar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda segja álit sitt (Forseti hringir.) á málinu? Finnst hv. þingmanni það boðlegt? Ég vil bara fá að vita það. Og ég vil fá að vita af hverju þessir hópar (Forseti hringir.) fá ekki að segja sitt álit á þessu máli.