Stjórnlagaþing

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 15:14:42 (0)


138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

stjórnlagaþing.

703. mál
[15:14]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel að síðasta ræðumanni hafi mælst vel eins og er allajafna þegar hann stígur í stólinn og ætla ekki að svara honum með öðrum hætti en þeim að ég er ekki sammála honum um að um eitt flækjustig í viðbót sé að ræða við þá aðferð sem sérfræðingarnir lögðu til og við, flutningsmenn þessa frumvarps, höfum tekið upp eftir þeim. Það er rétt hjá hv. þingmanni, valið stendur, af þeim pólitísku ástæðum að menn vildu hafa þröskuldinn lágan, ósköp einfaldlega á milli eins vandamáls og annars vandamáls, annars vegar þess að hafa kjörseðilinn þannig að hann yrði óvanalega viðamikill, sem væri ekki gott, og hins vegar þess að menn velji sér þriggja stafa númer og setji það á tiltölulega einfaldan seðil samkvæmt leiðbeiningum sem menn hafa fengið sendar heim til sín og hanga uppi á öllum kjörstöðum þar sem atkvæðagreiðslan fer fram. Ég virði það við þingmanninn að velja annan kostinn en ekki hinn, en ég held að valið sé á milli tveggja svolítið flókinna aðferða sem ég treysti íslenskum kjósendum þó vel til að ráða við. Mín skoðun er sú að það sé betra, hentugra, þægilegra og einfaldara að fara þá leið sem sérfræðingarnir benda á.