Skipulagslög

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 17:07:56 (0)


138. löggjafarþing — 156. fundur,  9. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég hleyp í skarð Ólínu Þorvarðardóttur sem varð að víkja sér frá brýnna erinda. Eins og boðað var við 2. umr. fjallaði umhverfisnefnd um málið á fundi í dag og ég held reyndar líka í gær. Hún fékk á sinn fund fólk úr umhverfisráðuneytinu og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ræddi gjaldtökuákvæði frumvarpsins, staðfestingu skipulagstillögu, málshöfðunarrétt sveitarfélaga, gerð tillögu að landsskipulagsstefnu og hverfisskipulag.

Ég ætla að fara stuttlega yfir nefndarálitið en menn geta einnig kynnt sér breytingartillögurnar, orðalag þeirra og rökstuðning nefndarinnar í nefndarálitinu.

Nefndin ræddi gjaldtöku fyrir skipulagsvinnu og breytta skipan gjaldsins. Hún komst að niðurstöðunum sem greinir frá í nefndarálitinu.

Nefndin ræddi einnig málshöfðunarrétt sveitarfélaga vegna umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar. Sú athugasemd barst að breytingin sem nefndin hafði áður lagt til í ákvæðinu væri óþörf en ef það ætti að halda henni þyrfti hún frekari útfærslu. Nefndin leggur til að breytingin sem áður var flutt og hún var samhljóða um yrði tekin burt. Hún vísar þar til rökstuðnings í nefndarálitinu og úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. nóvember 2000 í máli sem tiltekið er. Nefndin telur að málshöfðunarrétturinn sé þegar til staðar samkvæmt almennum réttarfarsreglum.

Einnig ræddi nefndin um landsskipulagsstefnu sem er eitt af aðalmálum frumvarpsins. Hún hafði áður lagt til að sérstök verkefnisstjórn annaðist stefnumótunina. Ein af helstu ástæðum tillögunnar var að Skipulagsstofnun voru falin ýmis hlutverk í frumvarpinu sjálfu. Hún átti m.a. að meta hvort landsskipulagsstefna ætti að fara í umhverfismat. Það var óeðlilegt.

Nú hefur nefndin látið sannfærast um að sú skipan sem lögð var til var ekki heppilegasta lausnin á málinu og leggur því til að umhverfisráðherra verði falið það hlutverk að meta hvort landsskipulagsstefna fari í mat á umhverfisáhrifum áætlana. Skipulagsstofnun sem er sú fagstofnun sem helst kemur til greina sjái um mótun landsskipulagsstefnunar, þó í samráði við sérstaka sjö manna ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar. Þar eiga að vera fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, opinberra stofnanna og fagaðila á sviði skipulagsmála. Skipulagsstofnun skal hafa samráð við hana, sem gert er grein fyrir í nefndarálitinu og í tillögutextanum.

Við í nefndinni ræddum einnig um hverfisskipulag sem er eitt af nýmælum í frumvarpinu. Í breytingartillögum okkar kom inn ósk Reykvíkinga, bæði skipulagsfólks borgarinnar og fulltrúa allra stjórnmálaafla hennar. Tillögur nefndarinnar um skipulagið þóttu óljósar en nefndin telur að tillögur hennar í þessu efni eigi að standa. Hún bendir á að skipulaginu sé ætlað að vera hliðstætt deiliskipulagi og gilda í grónum hverfum í þess stað. Almennar málsmeðferðarreglur sem gilda um deiliskipulag um kynningu, samráð, auglýsingu, samþykkt o.fl. eigi við um gerð hverfisskipulags eins og þurfa þykir. Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu til þess að herða á þessu en telur að næst liggi fyrir að umhverfisráðherra setji reglugerð um hverfisskipulagið og hafi um það samráð við sveitarfélögin, einkum Reykjavík sem eftir þessu óskar. Það er okkar trú að þetta verði líka að gagni í öðrum sveitarfélögum þar sem er gömul byggð, sem er sem betur fer víða um landið.

Við leggjum einnig til að orðalag í lögunum verði samræmt og lagfært eins og sjá má í nefndaráliti okkar og breytingartillögunum sem því fylgja.