138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:42]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir spurningu hennar. Ég ítreka að ég er ekki að ásaka ráðherra um að brjóta lög um ráðherraábyrgð. Hins vegar vekur það spurningu hjá mér og mörgum öðrum hvort ekki sé alvarlegur hlutur ef hann ákveður í rauninni að ganga gegn samþykkt Alþingis og ákveður að ráðuneyti hans og málaflokkar hans taki ekki þátt í þeirri vinnu sem stjórnvöld hafa ákveðið að gangast undir næstu árin, algerlega óháð því hver niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu verður.

Mér finnst áhyggjuefni ef þeim stéttum sem falla undir ráðuneyti hæstv. ráðherra er ekki gefinn kostur á því að undirbúa sig undir fulla þátttöku ef af verður. Mér finnst alvarlegt þegar hann með ásetningi segir að við ætlum ekki að taka þátt í þessu. Ég mun aldrei taka þátt í því að ákæra hæstv. ráðherra Jón Bjarnason fyrir þessa ákvörðun en mér finnst hún alvarleg. Mér finnst alveg þess virði núna þegar vitund þingmanna og þjóðarinnar um ábyrgð ráðherra hefur verið vakin að skoða það. Það er hlutverk þingsins — ekki satt? — samkvæmt skýrslu þingmannanefndarinnar að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Ég tel mig veita framkvæmdarvaldinu mjög mikið aðhald með því að vekja athygli á þessu vegna þess að þetta er eina ráðuneytið sem tekur engan þátt í undirbúningi aðildarviðræðnanna (Gripið fram í: Þetta er rangt.) og enginn vilji er til að ráðuneytið taki virkan þátt í verkefnum og kalli eftir aðstoð og ráðgjöf. Það eru þær upplýsingar sem ég hef og ég hef áhyggjur af því. (Gripið fram í: Það er rangt.)