Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 15:02:07 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og gott samstarf í þingmannanefndinni. Í kjölfar þingsályktunartillagnanna hefur svolítið verið rætt um það, aðallega í fjölmiðlum, hvort hægt sé að breyta ákæruskjalinu sem Alþingi mun hugsanlega samþykkja síðar í vikunni eða næstu viku, eftir rannsóknina sem hv. þingmaður vísaði til að færi fram af hálfu saksóknara Alþingis. Mig langar að fá fram hjá hv. þingmanni hvaða skoðun hún hefur á þeim sjónarmiðum. Er það svo að saksóknarinn geti lagt til breytingar á ákærunni þegar hann gefur út ákæruskjalið samkvæmt lögunum? Þarf það að vera algjörlega í samræmi við þingsályktunartillöguna sem fer hér í gegn eða telur hv. þingmaður að þingið eigi og geti og hafi heimild til að breyta ákæruatriðunum eftir á?