Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:53:15 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vekur máls á nokkru sem við þurfum að gæta að og það er trúverðugleiki þingsins og ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hann aukum við ekki í dag. Auðvitað verða þeir sem sátu á þingi árið 2007 að sækja sér endurnýjað umboð eins og þeir hafa einu sinni gert og gera eftir atvikum kannski á ný.

Ég vek þó athygli á því að þó að hér hafi valist margt nýtt, gott og grandvart fólk til þings í síðustu alþingiskosningum hefur það ekki orðið til að auka trúverðugleika þingsins þannig að það eitt og sér hygg ég ekki að sé lausnin. Ég held að verkefnið sé miklu víðtækara og snúi fyrst og síðast að því að við sem hér erum breytum í stórum og veigamiklum atriðum starfsháttum okkar.