Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 13:31:29 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu hans sem er margslungin. Svarið við henni er ekki einfalt en ég tel þó að í ræðu minni, þar sem ég fór yfir ákæruatriðin á hendur einstökum ráðherrum, hafi svar mitt falist og sú niðurstaða mín að ég tel að á endanum þurfum við þingmenn í þessum sal að taka afstöðu til þeirra ákæruatriða sem fram eru borin og það sé verkefni okkar númer eitt.

Það sem ég nefndi varðandi samviskuspurninguna og réttlætisspurninguna, og ég játa að mér er misboðið að við stöndum í þeim sporum út af fyrningarákvæði ráðherraábyrgðarlaganna að geta í raun og veru ekki haft alla þá undir sem ég tel að hafi borið mesta ábyrgð á bankahruninu, tel ég engu að síður skyldu okkar að taka afstöðu til ákæruatriðanna eins og þau koma fyrir og láta þau ráða niðurstöðu okkar.