Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 11:42:24 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og gert ítarlega grein fyrir meginþáttum þess og forsendum. Við horfumst í augu við hrun bankanna, gengishrun íslensku krónunnar, tekjufall og stóraukin vaxtagjöld. Frumvarpið ber þess merki að orðið hafi umskipti í íslensku efnahagslífi. Hrun bankanna, hrun á tekjum og stóraukin skuldsetning með tilheyrandi vaxtagjöldum heldur áfram frá árinu í ár. Það kom í ljós að ekki var innstæða fyrir þeirri tekju- og útgjaldaaukningu sem átti sér stað á árunum fyrir hrunið. Mikið af þeirri tekju- og útgjaldaaukningu ríkissjóðs var fjármögnuð með lántökum. Tekjur af fjármálalífinu eru horfnar og hrun bankanna skilur eftir sig stórauknar skuldir. Segja má að fimmta hver króna hafi tapast hjá ríkissjóði og ljóst er að ekki er hægt að reka ríkissjóð á lántökum til margra ára.

Áætlaður halli fjárlaga í ár, 2009, virðist stefna í rúmlega 180 milljarða og í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir tæplega 90 milljarða halla á næsta ári. Til að laga stöðuna um 100 milljarða þurfa að koma til fjölþættar aðgerðir, bæði tekjuaukning og samdráttur útgjalda en þetta tvennt hef ég kallað aðlögun ríkisútgjalda að raunveruleikanum sem við okkur blasir eftir hrunið.

Allt of margir halda að þeir geti endurreist ríkissjóð og atvinnulífið eins og það var árið 2007. Þeir hinir sömu fara villir vegar því að það var aldrei innstæða fyrir neyslunni þá og samfélagið verður að horfast í augu við á einföldu hagfræði að við verðum að lifa af þeim tekjum sem við öflum en ekki lántökum og froðufærslum. Þegar gripið var til endurskoðunar fjárlaga fyrir yfirstandandi ár strax í desember sl. var við það miðað að láta enda ná saman á næstu fimm árum. Fjárlögin voru skorin niður um 45 milljarða og miðað við 155 milljarða halla, en síðan var bætt um betur og reynt að mæta fyrirsjáanlegum 20 milljarða auknum halla bæði með skattlagningu og útgjaldalækkun á árinu.

Bættur hagur ríkissjóðs á næstu árum krefst góðrar fjármálastjórnar og öflugs aðhalds og eftirlits. Það er ekki lengur hægt að treysta á fjáraukalög. Stærsta viðfangsefnið er að tryggja að útgjöld ársins haldist innan fjárlaga en á liðnum árum hefur viðgengist að leiðrétta fjárlagafrumvarpið jafnvel um nokkra tugi milljarða í fjáraukalögum ár hvert. Við endurskoðun fjárlaga í byrjun sumars voru settar reglur um að stofnanir ríkisins gætu ekki flutt með sér ónotaðar fjárheimildir frá árinu 2008 til ársins í ár án þess að um það væri fjallað sérstaklega. Það, aukið aðhald og staðan í heild þrengdu mjög að rekstri og reynir mjög á fjármálastjórn stofnana og eftirlit einstakra ráðuneyta og fjármálaráðuneytis að geta ekki veðjað á innstæður sem eru ónotaðar eða treyst á fjáraukalög. Samhliða slíkum aðgerðum þarf að efla mjög eftirlitshlutverk Alþingis sem fer með fjárveitingavaldið og kem ég að því síðar.

Við horfum á afleiðingar rangrar fjármálastjórnar liðinna ára þar sem röð rangra ákvarðana í þenslunni virkaði sem olía á eld. Ef um venjulegan samdrátt efnahagslífsins hefði verið að ræða í framhaldi af eðlilegu ástandi í íslensku þjóðlífi ættum við að reyna að örva atvinnulífið með auknum framkvæmdum, draga úr skattheimtu einstaklinga og fyrirtækja og auka lántökur til að ná okkur út úr kreppunni. Því miður höfum við ekki þessi úrræði og nefni ég nokkrar ástæður þess.

Í fyrsta lagi má nefna óhóflega skuldsetningu heimila og fyrirtækja og þenslu á svokölluðum góðæristímum á árunum 2004–2008. Ríkissjóður var rekinn hallalaus og skuldir greiddar niður en um leið og settar voru í gang stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar, virkjanir og álver, komu nýju einkabankarnir inn á markaðinn með 90% húsnæðislán, talað var um stóraukið veðrými sem ný verðmæti og hvatt til að nýta það veðrými til aukinnar skuldsetningar og fjárfestinga. Til að auka fjárstreymið í umferð í þenslunni ákváðu stjórnvöld þess tíma að lækka skatt bæði á einstaklingum og fyrirtækjum, bindiskylda fjármálafyrirtækja í Seðlabanka var lækkuð til að auka þensluna enn frekar og til að auka afköstin og mæta vaxandi framkvæmdagleði og þenslu komu til landsins 20 þúsund erlendir starfsmenn.

Við horfumst í augu við stórfellda skuldsetningu ríkisins í framhaldi af hruninu og þá er ég ekki að tala um Icesave. Þessi skuldsetning þjóðarinnar þar sem sveitarfélögin, einstaklingar, fyrirtæki og aðrir áttu sinn þátt var ævintýraleg. Samtímis var skuldsetning og velta bankanna ótrúleg þegar þeir uxu íslenskum efnahag, landsframleiðslunni, himinhátt yfir höfuð og hafa þeir með útþenslu sinni og óábyrgri stjórn valdið ómældu tjóni. Nú er áætlað að á næsta ári þurfi að greiða 100 milljarða vexti af þessum lánum. Þar af eru 300–400 millj. af lánunum vegna halla ríkissjóðs á árunum 2008–2010, 300 millj. vegna endurfjármögnunar banka og fjármálafyrirtækja, þótt sú tala sé ekki endanlega ljós, 300 millj. vegna Seðlabanka Íslands til að forða gjaldþroti hans og 150 millj. vegna gengisþróunar eldri lána. Þá er til viðbótar hægt að nefna 350 milljarða lán vinaþjóða, ef þau fást, til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og eru þá hvorki talin lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins né ríkisábyrgð af Icesave. Þessar tölur eru ekki nákvæmar né endanlegar og þarf við umfjöllun og vinnslu frumvarpsins í þingnefndum að skoða mjög nákvæmlega lánsfjáráætlun ríkisins og skiptingu vaxtagjalda. Ég hef ítrekað skorað á þjóð og þing að horfast í augu við að erfiðleikar okkar eru ekki til komnir vegna Icesave og því er hjákátlegt að detta í þann pytt að kenna Icesave og útlendingum um alla okkar erfiðleika. Við þurfum fyrst að taka til hjá okkur sjálfum og ákveða hvernig samfélag við viljum byggja, hvar við fáum tekjur okkar, í hvaða verkefni sameiginlegar tekjur eiga að fara, hvernig við forgangsröðum í samfélagi okkar og hvernig viljum við sjá endurreisn okkar samfélags.

Þjóðin hefur væntingar um betra Ísland, nýjar áherslur, meira jafnrétti, réttlæti, gagnsæi og ráðdeild. Íslenska þjóðin svaraði þessu skýrt í kosningum í apríl sl. Þjóðin vill að hér verði kjörin jöfnuð, að jafnrétti, réttlæti og gagnsæi verði aukið og hagsmunir þeirra sem minna mega sín í þjóðfélagi okkar verði varðir í þeim þrengingum sem þjóðin fer nú í gegnum.

Við höfum búið við það á liðnum áratugum að bilið á milli ríkra og fátækra hefur breikkað. Hinir ríku báru sífellt meira úr býtum á meðan þeir sem lægri tekjur höfðu eða þeir sem þurftu að treysta á lífeyrisgreiðslur fengu minna. Þrátt fyrir svokallað góðæri síðustu ára og góða afkomu hafði ekki tekist að byggja upp og styrkja t.d. stöðu fatlaðra og öryrkja né stöðu aldraðra. Það þarf breytt vinnubrögð, nýja hugsun og nýja forgangsröðun í samfélagi okkar. Baráttan um auðlindir og tækifæri í þessu landi er hafin að fullu, hagsmunagæsla þeirra sem áfram vilja sitja við kjötkatlana er hafin svo eftir er tekið og kallaðir á svið til að stýra þeirri baráttu með áróðri, endurnýttir rándýrir stjórnmálamenn á eftirlaunum.

Það þarf nýjar aðferðir við gerð fjárlaga og þær hafa að hluta til verið teknar upp. Við gerð fjárlaga fyrir 2009 var unnið samkvæmt samstarfsáætlun Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar var talið skynsamlegt að fara varlega í niðurskurði í fyrstu, hafa hæga aðlögun að breyttri stöðu en um leið að tryggja að ekki færi meira en óhjákvæmilegt er frá velferðinni yfir í vexti. Það er óbærilegt að greiða 100 milljarða á ári í vexti, upphæð sem er hærri en árlegur kostnaður við allt heilbrigðiskerfið. Þess vegna er í fjárlagafrumvarpi 2010 reynt að minnka þennan halla og þar með lántökur og stefnt er að því að tekjur dugi fyrir öðrum útgjöldum en vaxtagjöldum strax árið 2011 en það heitir því fína nafni að ná frumjöfnuði.

Það óvenjulega við fjárlagafrumvarp ársins 2010 er að það byggir á skýrslu sem gefin var út í júní sl. og rædd var á Alþingi þar sem allar forsendur 2010 og raunar 2011 voru lagðar fram og helstu útlínur fram til ársins 2013. Þessi vinna tengdist efnahagsáætlun ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en byggði jafnframt á samstarfi þingmanna, aðila vinnumarkaðarins, hins opinbera vinnumarkaðar og sveitarfélögum í hinum umtalaða stöðugleikasáttmála. Þar voru línurnar lagðar um skiptingu á tekjum og útgjöldum ríkisins þar sem 45% áttu að vera auknar tekjur og 55% lækkun útgjalda ríkisins. Línan var lögð um blandaða leið út úr vandanum þar sem saman færi skattlagning, útgjaldasamdráttur og örvun atvinnulífsins.

Það má öllum vera ljóst að skoðanir eru skiptar á því hve mikið eigi að fara til tekjuaukningar og þá hvernig og um leið hve mikið er dregið saman í útgjöldum. Þar stangast á hagsmunir ríkisstarfsmanna og annarra á vinnumarkaði en mikill niðurskurður ríkisútgjalda þýðir lækkun launa og fækkun ríkisstarfsmanna. Því er reynt að fara bil beggja, hafa nauðsynlegan samdrátt á ríkisútgjöldum án þess að vísa fólki beint út í atvinnuleysi en um leið reyna að skapa sem mest svigrúm til aukinna framkvæmda og fara hóflega í skattlagningu fyrirtækja.

Í umræddri skýrslu voru lögð drög að vinnubrögðum fyrir fjárlagagerð fyrir 2010 þar sem ákveðin var skipting samdráttar í útgjöldum. Miðað var við 5% í heilbrigðiskerfinu og velferðarstofnunum almennt, einkum málefnum fatlaðra, og við 7% í mennta- og menningarmálum og allri stjórnsýslunni. Í heildina er verið að tala um 7,3% lækkun á milli ára. Tekið var fram í þessari skýrslu og allri þeirri vinnu sem þá átti sér stað að þarna væri miðað við ákveðnar prósentutölur á ákveðna málaflokka, að ekki ætti að vera um flatan niðurskurð að ræða heldur mat á einstökum málum og hafa skyldi víðtækt samráð við starfsmenn og þá sem best þekkja til í þjónustunni. Í skýrslunni voru ýmis leiðarljós fyrir vinnu einstakra ráðuneyta þar sem lögð var áhersla á að verja grunnþjónustuna, velferðarkerfið, jafna kjör og gæta jafnréttis- og byggðasjónarmiða. Miðað var við að ráðuneytið leitaði allra leiða til að hagræða án þess að eiga við umsamið taxtakaup og laun þeirra sem hafa hæstu launin lækkuð. Enginn á að hafa hærri laun en forsætisráðherra, aukagreiðslur eru lækkaðar, sem og yfirvinna og fríðindi til að ná niður kostnaði við risnu og ferðalög, rekstur er endurskipulagður og horft er til þeirra þátta þar sem má ná bestum árangri. Ráðuneyti og stofnanir hafa brugðist vel við og hafa leitað allra leiða til hagræðingar og endurskipulagt starfsemina eftir mætti.

Ég hef áður tjáð þá ósk mína að fjárlaganefnd Alþingis þrói enn frekar hvernig staðið er að gerð fjárlaga hverju sinni en jafnframt hvernig haga beri eftirliti Alþingis á framkvæmd fjárlaga. Þannig sé ég fyrir mér að við gerð fjárlaga hvers árs liggi fyrir rammi fyrir árið eftir og í byrjun hvers fjárlagaárs bæti Alþingi við nýjum ramma þannig að á hverjum tíma séu til rammar fyrir tvö ár í senn. Þessa ramma á að ræða og afgreiða af Alþingi en síðan tekur framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnin við og semur fjárlagafrumvarpið og útfærir í smærri atriðum þau markmið sem Alþingi hefur afgreitt. Síðan tekur Alþingi við þeirri áætlun að nýju, þ.e. fjárlögum, og svo koll af kolli þannig að á hverjum tíma liggi alltaf fyrir áætlun fram í tímann og fullkomið eftirlit Alþingis þó að framkvæmdarvaldið útfæri þær hugmyndir sem fram koma frá þinginu.

Í fjárlagafrumvarpinu eru róttækar hugmyndir um uppstokkun í stjórnsýslunni, allt frá fyrirheitum um fækkun ráðuneyta, lokun Varnarmálastofnunar, uppstokkun sýslumannsembætta, skattumdæma o.fl. Allt hefur þetta það að markmiði að minnka yfirbyggingu, lágmarka stjórnunarkostnað og skila fjármagninu sem best til grunnþjónustunnar. Í þessari vinnu allri verður að gæta vel að ákveðnum þáttum svo sem ekki sé verið að gera skipulagsbreytingar nema árangur sé greinilegur hvað varðar bætta þjónustu og/eða lækkaðan kostnað. Það þarf að venju að setja upp sérstakar varnir til að gæta jafnréttis kynjanna og ekki síður jafnræðis á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Það er freistandi að líta á atvinnuleysistölur og sjá að atvinnuleysi er mest á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi en það má aldrei gleymast að á svæðum sem þenslan fór fram hjá hefur fólksflótti til höfuðborgarsvæðisins leyst atvinnuleysið. Vestfirðir, Norðvesturland og t.d. Vestmannaeyjar hafa mátt búa við fólksfækkun sem nemur allt að 15–20% á fáum árum. Opinber þjónusta hefur byggst upp hraðar á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og í nokkrum tilfellum hreinlega hlaðið utan á sig. Nokkur störf hafa verið færð út á land með mjög góðum árangri og má ekki spilla því þótt harðni á dalnum. Rétt er þó að geta að sérstökum aðgerðum eins og vegna aflasamdráttar á árinu 2007 er lokið og sést það í frumvarpinu. Hafa margir litið á það sem einhvern sérstakan landsbyggðarniðurskurð en auðvitað er það bara aðlögun að því að tíma þessara verkefna er lokið.

Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið að gæta jafnræðis á milli landsbyggðar og höfuðborgar og tryggja að sá jöfnuður sem við viljum auka nái til landsins alls. Sóknarfærin eru mörg. Það þarf aðeins að sjá þau og nýta þau. Þannig vitum við að með stærri þjónustusvæðum og sameiningu sveitarfélaga megi færa fleiri verkefni til sveitarfélaga svo sem málefni fatlaðra og raunar aldraðra að fullu. En þessum verkefnum verða að fylgja tekjur. Þessi vinna er í fullum gangi. Þegar þjónusta er sameinuð og samræmd verður að muna að það er jafnlangt frá Reykjavík og til Reykjavíkur frá öllum stöðum. Ef stofnun telur sig geta þjónustað landsbyggðina frá skrifstofu í Reykjavík getur skrifstofan á landsbyggðinni alveg eins þjónustað Reykjavíkursvæðið. Oft er þjónustan betur rekin frá smærri stöðum þar sem minni starfsmannavelta er og er sannað að almennt gengur mjög vel að manna stöður á landsbyggðinni.

Ég sé fyrir mér að uppstokkun í opinberri þjónustu í landinu verði mikil, sameining á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, en einnig verði til nýjar opinberar skrifstofur í öllum stærri byggðarkjörnum þar sem sveitarfélög og ríki reka saman þjónustu sína til hagræðis fyrir þá sem þjónustuna þurfa. Allt sem til þarf er að hverfa frá hrepparíg og sjá og nýta þau tækifæri sem bjóðast nú þegar við verðum að stokka upp og hugsa um nýjar leiðir í uppbyggingu og skipulagi opinberrar þjónustu með hagkvæmni í huga. Við þurfum að tryggja að þeir vaxtarsprotar sem hafa orðið til með náttúrustofum, háskólasetrum, framhaldsskólanámi, fjarnámi og símenntunarmiðstöðvum verði ekki drepnir í tímabundnum erfiðleikum þjóðar okkar.

Það eru auðvitað ýmis atriði í fjárlagafrumvarpinu sem við þurfum að skoða betur. Það á eftir að útfæra tekjuhlutann. Það þarf að skoða vaxtabætur, barnabætur og persónuafsláttinn en við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að við breytum ekki neinum af tölunum í fjárlagafrumvarpinu nema þá með því að finna tekjur á móti, annaðhvort með skattlagningu eða niðurskurði á öðrum sviðum.

Við gerum okkur líka grein fyrir því að það þarf auðvitað að gera allt til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast áfram, fá bankana í fullan gang og gæta þess að hjólin fari að snúast af fullum krafti. Þar er mikilvægt að við gætum þess að gefa ekki afslátt af einu eða neinu. Við þurfum auðvitað að halda okkar reglum, þær þurfa að vera skýrar og skilvirkar og öllum kunnar og við þurfum að gæta okkar á því að gefa ekki afslátt af samkeppnisreglum, umhverfiskröfum eða skattamálum umfram það sem nauðsynlegt er.

Ég hef viljandi ekki rætt einstök atriði í frumvarpinu eða lesið tölur enda kemur frumvarpið í heild til skoðunar í nefndum þingsins og í fjárlaganefnd. Það vekur furðu þegar talsmenn annarra stjórnmálaflokka kvarta undan því að sumt eigi eftir að útfæra — einhver sagði að fjármálafrumvarpið væri ekki tilbúið — vegna þess að í því felst að Alþingi Íslendinga eigi ekkert að koma að málinu, að menn hafi fyrir fram gefið sér að Alþingi hafi ekkert til málanna að leggja. Það er auðvitað Alþingi sem ákveður fjárlögin og vinnan hefst þegar búið er að tala fyrir frumvarpinu í 1. umr.

Fjárlagafrumvarpið er nú að koma til þingsins úr höndum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar. Við verðum auðvitað að vinna eftir þeim stjórnarsáttmála og þeirri forgangsröðun sem hafa verið lögð fram og það munum við gera í úrlausnum okkar og frekari vinnu í fjárlaganefnd. Það er okkar alþingismanna að taka þetta frumvarp og skoða hvort staðið hefur verið við þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Það er okkar að betrumbæta fjárlögin um leið og við alþingismenn verðum að vinna af ábyrgð og tryggja að hér verði skuldir lækkaðar hratt og örugglega og dregið úr vaxtakostnaði. Því er ekki hægt að gera ráð fyrir að útgjaldaaukningin frá því frumvarpi sem hér er verði mikil. Við skulum vera óhrædd að skoða einstaka þætti en við verðum að gera okkur grein fyrir að tíminn líður hratt og við verðum að höndla hratt. Einstaka kaflar fjárlagafrumvarpsins verða sendir til fagnefnda. Efnahags- og skattanefnd mun að venju fara yfir tekjurnar en aðrir nefndir taka til umfjöllunar og veita umsögn til fjárlaganefndar um viðkomandi málaflokka. Ég hvet nefndirnar til skjótrar en vandaðrar vinnu, ítarlegrar umfjöllunar og ákvörðunar á forgangsröðun fjárlagaliða en að sjálfsögðu verða allir, eins og áður sagði, að halda sig innan þess heildarramma sem ákveðinn hefur verið ef vel á að fara.

Ég óska eftir góðu samstarfi við nefndir og alla alþingismenn um umfjöllun um frumvarpið og treysti á að frumvarpið komi til 2. umr. enn betra en það er nú þegar og verði afgreitt fyrir jól sem góður grunnur fyrir nýtt ár þrátt fyrir erfiðar aðstæður og mikinn samdrátt, erfiða aðlögun ríkisfjármála að nýjum veruleika.