Breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

Þriðjudaginn 20. október 2009, kl. 13:37:56 (0)


138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nú mun reyna mjög á þingmenn þar sem við munum ræða það mál sem þingmenn ákváðu af skynsemi að hleypa ekki inn með einhverjum gríðarlegum hraða. Vegna þess að ég sé hvers konar leikrit er að fara í gang og hvers konar umræða er farin af stað hjá ýmsum stjórnarliðum vil ég, virðulegi forseti, nota tækifærið og lesa aðeins upp úr yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra lagði ásamt hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega áherslu á það fyrir nokkrum vikum að við værum að samþykkja mál sem væri þess eðlis að fyrirvararnir við það rúmuðust fyllilega innan Icesave-samningsins. Hæstv. forsætisráðherra sagði, með leyfi forseta, við fjölmiðla:

„Ég tel að hvert einasta þjóðþing í Evrópu hefði talið sig alveg í fullum rétti til þess að setja slík öryggisákvæði eins og þarna er gert.“ Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir nokkrum dögum í þingræðu, með leyfi forseta:

„Það er ekki réttlátt að Íslendingar séu látnir gjalda fyrir gallaða löggjöf Evrópusambandsins. Það er ekki réttlátt að Bretar og Hollendingar hreinsi hendur sínar af því að þeirra eigin fjármálaeftirlit hafi brugðist, ekki síður en okkar, í Icesave-málinu og það er afar ósanngjarnt að þeir skuli torvelda samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við urðum fórnarlömb þess að allar þjóðir sem við eigum helst samskipti við, bæði austan hafs og vestan, töldu nauðsynlegt að verja gallaðar fjármálareglur til þess að forða áhlaupi á banka víða um heim.“

Þetta þekkir hæstv. forsætisráðherra mjög vel. Samfylkingin var með bankamálaráðuneytið þegar þessar skuldbindingar hlóðust upp, (Forseti hringir.) sömuleiðis með Fjármálaeftirlitið. Menn skyldu hafa það hugfast í umræðu um þetta mál.