Staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave

Miðvikudaginn 21. október 2009, kl. 13:32:09 (0)


138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:32]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Ég tek til máls til að vekja athygli á vanmætti skuldara gagnvart þeim flóknu fjármálakerfum sem nú ríkja í íslensku samfélagi. Þetta er ekki nýtt vandamál. Fæst okkar skilja í raun og veru undirliggjandi lögmál fjármálakerfisins eða höfum forsendur til að berjast fyrir rétti okkar í þeim efnum. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi virðast sjálfar grundvallarreglurnar mjög flóknar. Í öðru lagi hefur skort á kennslu í því sem er nefnt fjármálalæsi og í þriðja lagi hefur hagsmunabarátta skuldara ekki átt sér vel skilgreindan farveg eftir lögformlegum leiðum. Það er þessi síðasti liður sem ég vil sérstaklega skoða.

Ýmsir aðilar sjá um hagsmunamál neytenda og ég efast ekki um að þeir geri það allir með miklum sóma. Einhver gloppa virðist þó vera í kerfinu. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna er hlutlaus milliliður. Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök. Talsmaður neytenda sinnir málaflokknum en er, eins og fleiri, með takmarkað svigrúm til aðgerða. Neytendastofa er líka hlutlaus aðili sem fjallar almennt um megindrætti og lánasamninga. Neytendastofa vísar sumum einstaka málum til úrskurðarnefndar Fjármálaeftirlitsins en samkvæmt nýjustu upplýsingum þaðan hljóðar biðröðin upp á 3–4 mánuði. Kerfið er sem sagt flókið og farvegurinn illa skilgreindur.

Mig langar til að nálgast þetta almennt á þeim forsendum að vaxtakjör og lánakjör skipti þegar upp er staðið jafnvel meira máli en sjálf launakjörin sem við þó berjumst fyrir með kjafti og klóm í gegnum stéttarfélögin. Ég nefni þetta sérstaklega hér vegna þess að nú liggur fyrir frumvarp um skuldavanda heimilanna sem er mjög flókin aðgerð og ég beini þeim tilmælum til allra þingmanna og sérstaklega formanna og varaformanna nefnda sem hafa með málið að gera að skoða þennan vinkil á málinu.