Fyrirvarar við Icesave-samninginn

Fimmtudaginn 22. október 2009, kl. 10:56:32 (0)


138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

fyrirvarar við Icesave-samninginn.

[10:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að næst þegar hæstv. ráðherra heldur ræður um hverjir séu að snúast í stjórnmálum þurfi hann að bæta einhverjum við. Ef hann heldur því fram að hann hafi ekki verið sammála hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra þegar þau sögðu að ekki þyrfti nýjar viðræður, þetta væri innan ramma samkomulagsins, og lýstu því staðfastlega yfir og beittu sér til þess að þetta væri með þeim hætti verður hann, held ég, að bæta við þeim aðilum sem eru búnir að taka hringsnúning í stjórnmálum.

Ég vek athygli á því að hér sagði formaður Sjálfstæðisflokksins, og fékk bágt fyrir, að það þyrfti að fá nýjar viðræður. Hann sagði að hér væri um gagntilboð að ræða. Formaður Sjálfstæðisflokksins spurði hvort ekki væri skynsamlegt að bíða aðeins með þetta mál og menn mundu fara í viðræðurnar. Nei, forustumenn ríkisstjórnar sögðu að það þyrfti engar nýjar viðræður, (Gripið fram í.) þetta rúmaðist alveg innan ramma samkomulagsins. Hér erum við að tala um að annaðhvort sögðu þeir vísvitandi ósatt eða þeir eru búnir að fara marga hringi í þessu máli (Forseti hringir.) og þeir sem bera kostnað af því eru íslenska þjóðin. (Gripið fram í.)