138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég taki nú fyrst upp þráðinn um „óreiðufólk“ hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, þá veit ég ekki með hvaða samfylkingarfólki hún hefur verið í kosningabaráttunni, en svo mikið veit ég að ég talaði ekki um óreiðufólk og sukk, en ég talaði um að það væri óheppilegt að við værum að nýta fjármuni til þess að aðstoða þá sem þyrftu ekki á aðstoð að halda, heldur ættum við að beina henni þangað sem hennar væri þörf. Hennar getur verið þörf hjá fólki í öllum tekjuhópum og með ýmsar tegundir eigna og þar vil ég ekki (Gripið fram í.) gera upp á milli.

Bankamaður hefur áhyggjur af að þetta sé óheppilegt. Það var mjög mikið samráð haft við ýmsa aðila um þetta mál og margir strangir fundir með fulltrúum frá lánastofnunum. Þessir aðilar hafa verið í fullri samvinnu um þetta. Hvað svo einstökum bankamönnum kann að þykja pólitík og hvað ekki, það get ég ekki ráðið við, guði sé lof. En hann telur þá væntanlega hugmyndir Framsóknarflokksins fullkomlega ópólitískar.

En varðandi yfirveðsetninguna, þá er það áhyggjuefni ef hlutfall yfirveðsetningar á fasteignamarkað verður of hátt. Eitthvað af því mun á einhverjum árum ná til baka, en það er náttúrlega hin sértæka skuldaaðlögun sem mun gera kleift að koma í veg fyrir að alvarlegur vandi skapist til lengri tíma hvað það varðar.