Þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja

Föstudaginn 23. október 2009, kl. 15:05:13 (0)


138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

79. mál
[15:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Erlingsdóttur fyrir andsvarið sem var í rauninni meðsvar sem samkvæmt nýjustu túlkunarreglum hæstv. forseta eða þeim túlkunarreglum sem eiga að vera í gildi er kannski ekki sérstaklega það sem við eigum að vera að gera. Engu að síður, af því að við erum komin á þennan stað, þá er að sjálfsögðu mikils um vert að það sé samstaða um þetta stóra verkefni og það sé samstaða um að við séum ekki hrædd við svona tækifæri. Það örlar oft á því að þegar menn eru farnir að tala um samstarf og horfa til stærri svæða þá verður hálfgerð hræðsla um að einhver ætli að fara að taka eitthvað frá öðrum. En við verðum að láta af þeim hugsunarhætti og horfa kannski frekar til þess að við séum bæði að styrkja þjónustuna og eins hugsanlega að grípa einhver tækifæri sem ekki er verið að nýta akkúrat eins og staðan er í dag.

Sérstaðan er mikil á þessu landsvæði, í Vestmannaeyjum, og innan heilbrigðisþjónustunnar er mikil þörf og mikil krafa um hagræðingu og niðurskurð í einhverjum tilfellum og við verðum einfaldlega að horfa á það verkefni sem er á borðinu. Það er harður vetur fram undan, það verður niðurskurður. Það þarf að hagræða í opinberum rekstri og það besta sem við getum gert er að nýta þær stofnanir sem við eigum og horfa á sérstöðu þeirra og þeirra helstu styrkleika og keyra á þeim. Og hver veit nema á endanum komi það þannig út að verkefnin komi til með að aukast og kostnaðarþátttaka þjónustuþeganna sem hugsanlega gætu komið utan frá komi til með að færa stærri þætti inn í rekstur þessara stofnana.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég ítreka hversu mikilvægt það er að við séum samstiga um þessi mál, við sem sitjum á þingi. Ég persónulega mun alla vega minnast dagsins í dag sem dags mikillar samstöðu í þinginu, það hafa gerst undraverð tíðindi hérna í dag varðandi skuldamál heimilanna og ég vona að sá andi komi til með að fylgja okkur a.m.k. út þennan vetur.