Forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 14:38:19 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur orðið um heilbrigðismál og tek undir það sem sagt var áðan, það er vert að taka þessi mál oftar og ítarlegar til umræðu. Tíminn verður eitthvað svo óendanlega stuttur þegar maður er kominn í pontuna, eins og ég hef séð hjá flestum ræðumönnum. Og nú er tími minn að verða hálfnaður. [Hlátur í þingsal.] Hér hefur verið drepið á margt og ég vil bregðast við á þann hátt að ég ítreka að þær tillögur sem kenndar hafa verið við Huldu Gunnlaugsdóttur voru alls ekki fullbúnar í lok september og gátu þess vegna ekki ratað inn í neina áætlanagerð strax. Það vantaði alla verðmiða á það sem þar kom fram og það er unnið að því að finna sem gleggstar og bestar upplýsingar um það. Það verður gert og það verður kynnt hv. heilbrigðisnefnd.

Verkefni dagsins eru ærin. Við erum að taka ákvarðanir sem munu hafa mikil áhrif á heilbrigðisþjónustuna og á heilbrigði landsmanna til lengri tíma. Við þurfum að minnka áhættuna í þessari ákvarðanatöku og við skulum muna að við erum ekki með neina viðbragðsáætlun í þessu efni gagnvart kreppunni, eins og við vorum með gagnvart svínaflensunni. Þess vegna er hætt við að ákvarðanir geti orðið tilviljanakenndar og jafnvel bitnað á þeim sem síst skyldi ef ekki er fylgt þeim leiðarljósum sem lagt hefur verið upp með og ef ekki er horft til þess hvernig áhrifin af niðurskurðinum koma við einstaka hópa. Það er verkefni dagsins, að efla vaktina, efla velferðarvaktina, efla eftirlitshlutverk landlæknis og vera viðbúin því að taka aftur ákvarðanir ef þær skila ekki tilætluðum árangri eða bitna öðruvísi en menn ætluðu. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu.

Til framtíðar erum við að horfa á, eins og hér var sagt, byggingu nýs háskólasjúkrahúss og við horfum til þess að styrkja heilsugæsluna, taka upp valfrjálst tilvísanakerfi, efla menntun í heilsugæslunni og forvarnir því að þetta á að vera sú framtíðarsýn sem við höfum og skiptir miklu (Forseti hringir.) máli í miðjum niðurskurði að hafa skýra framtíðarsýn. Ég þakka fyrir umræðuna.