Meðferð sakamála

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 14:49:37 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[14:49]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsögu sína um þetta mál. Í sjálfu sér þarf kannski ekki að hafa eða setja á langar ræður um þetta mál, enda felur þetta í raun og veru bara í sér frestun eins og hæstv. ráðherra gerði ágætlega grein fyrir. En mig langar aðeins til að bregðast við orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur varðandi þetta mál þar sem hún efaðist um vilja framkvæmdarvaldsins til þess að láta þetta verða að veruleika.

Eins og kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra, þá er það skýr vilji að þetta verði með þessum hætti, en miðað við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu í dag er það einfaldlega þannig að menn verða að reyna að spara á öllum sviðum samfélagsins, bæði þessu og öðrum. Þess vegna er lagt til hér að gildistöku frumvarpsins verði frestað.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, frú forseti, til að hrósa hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra og starfsfólki hennar í ráðuneytinu, sérstaklega fyrir vinnu við fjárlagagerðina. Við áttum fund í allsherjarnefnd í morgun með fulltrúum ráðuneytisins þar sem farið var yfir fjárlagafrumvarpið og fjárlagarammann. Það er alveg ljóst að þessi tiltekni ráðherra og starfslið hennar hafa algerlega haldið sig innan þess ramma sem lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu, þó svo að við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort rétt sé að þetta tiltekna ráðuneyti hafi fengið 10% hagræðingarkröfu eða einhverja lægri kröfu. Ég hef lýst því áður í þessum ræðustól að ég er þeirrar skoðunar að þetta ráðuneyti hefði átt að flokkast með ráðuneytum heilbrigðis- og félagsmála, sem grunnþjónusturáðuneyti og hefði þar af leiðandi átt að fá á sig hagræðingarkröfu í samræmi við það, en það er ekki veruleikinn sem við búum við. Við verðum einfaldlega að spila úr því sem við höfum. Og eins og ég segi, ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það.

Það er auðvitað svolítið sérkennilegt, frú forseti, það liggur við í hverju málinu á fætur öðru sem kemur til kasta Alþingis, hvort sem það er úr þessu ráðuneyti eða einhverju öðru, að alltaf eru einhverjir tilteknir hv. þingmenn sem telja að hægt sé að gera allt fyrir alla. Það má hvergi spara. Það má hvergi skera niður. Það má hvergi auka álögur. Það má hvergi auka tekjur. Það má hvergi hækka skatta. Ég velti því stundum fyrir mér þegar ég sit í þessum sal og hlusta á ræður þessara tilteknu hv. þingmanna, hvort hrunið sem varð hér sl. haust hafi farið fram hjá þeim, vegna þess að hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá erum við hér með ákveðinn ramma. Það má segja að við séum hér með ákveðinn debetlista og kreditlista, sem verða einfaldlega að stemma. Þá verða menn að hafa kjark til þess og dug og djörfung og pólitískt hugrekki að horfast í augu við það og forgangsraða, þá þýðir ekki að koma hér upp í ræðustól í hverju málinu á fætur öðru og segja að það megi ekki skera hér, það megi ekki skera þar, það megi ekki hækka þetta og það megi ekki hækka hitt. Þá hlýtur maður að gera þá kröfu til þessara háttvirtu tilteknu þingmanna að þeir komi þá með einhverjar tillögur á móti, að þeir segi þá raunverulega hvernig þeir vilji að hlutirnir eigi að vera, í stað þess að standa hér sí og æ og gagnrýna. (Gripið fram í.)

Ég vil segja það hér í þessari umræðu, frú forseti, að þó að þetta hafi kannski verið svolítill útúrdúr hérna undir það síðasta í umræðum um þetta tiltekna mál, þá er þetta þó angi af því sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra var að gera grein fyrir áðan að hér er um tímabundna frestun að ræða vegna efnahagsástandsins. Það liggur fyrir skýr vilji, bæði löggjafans og framkvæmdarvaldsins, um að þetta eigi að vera með þessum hætti. Það verður ekki með þessum hætti fyrst um sinn, en það verður þannig þegar fram líða stundir og birtir til í efnahagslífi þjóðarinnar.