Meðferð sakamála

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 15:02:32 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:02]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir málefnalegt innlegg í þessu andsvari. Það sem ég átti við varðandi það sem ég sagði um fjárlagafrumvarpið og þann raunveruleika sem við búum við er sú staða sem við erum að vinna við í augnablikinu, hv. þingmaður. Það í raun og veru felur ekki í sér að það geti ekki breyst. Fjárlagafrumvarpið er, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, í meðförum hér. Hv. allsherjarnefnd á eftir að gefa álit sitt til hv. fjárlaganefndar um frumvarpið og það hvernig hún lítur á þær tillögur sem hafa komið frá dóms- og mannréttindaráðuneytinu. Ég útiloka svo sem ekki að eitthvað muni breytast í því þó ég vilji ekkert fullyrða eða lofa neinu í þeim efnum, því eins og ég sagði fyrr í dag erum við í þeirri stöðu að við þurfum að láta hlutina ganga upp. Við erum í mjög erfiðri efnahagslægð í augnablikinu og ef við bætum í á einhverjum einum stað verðum við auðvitað að taka úr einhvers staðar annars staðar, það er bara sá raunveruleiki sem við búum við. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það hafandi verið stjórnarþingmaður mjög lengi og hefur sýnt í þessari umræðu mjög ábyrgan málflutning og fleiri hv. tilteknir þingmenn mættu taka sér það til fyrirmyndar.