Meðferð sakamála

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 15:10:48 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að árétta það þá er ég ekki viðkvæmur fyrir þessari umræðu, svo það sé alveg á hreinu. Ég vildi bara taka boltann sem hv. þingmaður varpaði upp, benti á það að menn yrðu að forgangsraða upp á nýtt. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það þurfi að gera og einmitt núna þurfi að gera það með þeim hætti að menn fari í það mjög ábyrgt, þó ég sé ekki að halda því fram að það hafi ekki verið gert áður.

En menn mega ekki gleyma sér í gleðinni. Ég var aðeins að benda á þá einföldu staðreynd, því maður hnaut um þetta, að hjá Ríkisútvarpinu starfa jafnmargir og hjá löggæslunni. Ég tel mjög varasamt við þessar aðstæður og í ljósi efnahagshrunsins og það sem bíður þar, bæði að fara að skera niður hjá dómstólum og lögreglu, þá hefði ég einmitt haldið að við mundum reyna að forgangsraða í samfélaginu upp á nýtt. Það er af þeirri einföldu ástæðu sem ég vek máls á þessu. Og eins því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og atvinnumálastefnu ríkisstjórnarinnar, að lausn á því að fækka fólki á atvinnuleysisskrá sé að fjölga fólki á listamannalaunum. Þá teldi ég þeim peningum betur varið t.d. hjá lögreglunni við þær aðstæður sem nú eru uppi eins og við höfum orðið margoft vitni að.