Dómstólar

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 15:34:52 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:34]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um áhrif á starfsemi dómstólanna utan höfuðborgarsvæðisins. Ég skal alveg játa að það er eitthvað sem maður hefur velt fyrir sér og við höfum velt þessu fyrir okkur í ráðuneytinu, vegna þess að allar þær aðgerðir og tillögur sem við höfum verið að vinna að undanfarið — þá er einmitt ein helsta gagnrýnin alltaf sú að það hafi áhrif á landsbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið. Ég get alveg fallist á að það er einmitt sjónarmið sem verður að huga mjög vel að og gæta að því að það verði ekki þannig að hér safnist öll þjónusta á eitt horn. Það er eitthvað sem verður að fyrirbyggja.

Þegar maður segir að það sé mismunandi álag á dómurum, að það sé í einum landshluta minna og öðrum landshluta meira, þá eru það svona ákveðnar vísbendingar um að það megi þá jafna álagið og standa öðruvísi að hlutunum. En ég geri mér jafnframt grein fyrir því að dómararnir gegna mikilvægu hlutverki og það er mikilvægt líka fyrir fólk hvar sem það er statt á landinu að geta sótt þessa þjónustu. Þetta er í rauninni spurning sem kemur upp í öllum okkar áætlunum um endurskipulagningu á starfsemi ríkisins.

Spurningin hvort ná megi fram sparnaði á annan hátt, þá er það í raun alveg rétt. Þessi sparnaður er sáralítill, það er kannski hagræðingin sem er meira atriði í þessu öllu saman því það er ekkert af svo óskaplega miklu að taka.