Dómstólar

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 18:02:20 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[18:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur haft lítinn tíma en vil minna á spurningu mína, sem kom fram í ræðu minni hér áðan, um tölur yfir málafjölda milli dómstólanna þar sem mikið var rætt um mismunandi álag. Í þeim tölum þyrfti þá jafnframt að koma fram hver fjöldi dómara og starfsmanna er.

Dómsmálaráðherra minntist á það í ræðu sinni á bakvaktirnar, að það væri mögulegt að hagræða þar þegar búið væri að fara fram með þessar breytingar. Ég hef hins vegar haldið því fram að hægt sé að fara í þá aðgerð án þess að umræddar breytingar eigi sér stað. Það væri ágætt að fá fram einhver skoðanaskipti um það. Við áttum okkur alveg á því að það þarf að spara og ná fram einhverri hagræðingu, en maður vill náttúrlega fá að sjá að það sé þá verið að fara í réttu aðgerðirnar. Þetta er atriði sem mér þætti gott að fá nánari útskýringar á.