Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 18:34:08 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:34]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er glaður yfir því að hugmyndir um persónukjör skuli vera komnar fram í frumvarpsformi eða í frumvarpaformi og fagna því, vegna þess að ég er sannfærður um að persónukjör er lýðræðisleg þróun sem við eigum ekki að slá á frest eða neita okkur um. Mér finnst eins og þetta frumvarp sé stigi upp á næstu hæð lýðræðisins, en því miður nær sá stigi bara hálfa leið. Og stigi sem nær bara hálfa leið gerir frekar lítið gagn. Það sem upp á vantar er að mínu mati heimild fyrir eða möguleiki fyrir kjósendur að kjósa milli flokka, að velja fólk af mismunandi listum.

Ég ímynda mér, án þess að ég hafi nokkrar sannanir fyrir því — mér finnst eins og að á þessu frumvarpi séu ísköld fingraför flokkanna sem ekki geta hugsað sér að gefa eftir ögn af því heljarvaldi sem þeir hafa á stofnunum landsins og lýðræðinu, og lina ekki það kverkatak sem þeir hafa á lýðræðinu.

Það er talað um að við þurfum að vaka yfir framkvæmdarvaldinu og takmarka það. Ég held að við ættum líka að hafa augun opin gagnvart því að takmarka það vald sem stjórnmálaflokkar hafa tekið sér í þessu landi og sjá má dæmi um í þeim taumlausu fjárframlögum sem þeir hafa (Forseti hringir.) tryggt sér frá Alþingi.