Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 03. nóvember 2009, kl. 21:36:09 (0)


138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:36]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vissi það nú reyndar áður en hv. þm. Illugi Gunnarsson, sá góði drengur, sagði mér það, að hann er alls ekki á móti framförum, að minnsta kosti ekki öllum. Okkur greinir svolítið á í skilgreiningum okkar á íhaldsmönnum. Ég tel t.d. að ágæt skilgreining á íhaldsmönnum sé að þeir séu menn sem eiga mjög erfitt með að sætta sig við þá grundvallarstaðreynd í lífinu að dagurinn á morgun getur orðið líkur deginum í dag, en hann getur aldrei orðið eins. Hvernig svo sem mönnum gengur að sætta sig við staðreyndir þá auglýsi ég eftir þeim samhljómi sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagðist vonast til að finna eða vera að leita að. Ég auglýsi eftir þeim samhljómi sem skilar okkur áleiðis í átt til aukins lýðræðis. Ég hef heyrt hér alveg ótrúlegt röfl — af hverju í dauðanum erum við að ræða um lýðræði og lýðræðislegar framfarir núna þegar við ættum að vera að tala um atvinnumál? Hvers lags durtsháttur er þetta? Menn sem tala svona lifa sig bara til búks og kviðar, en maðurinn hefur fleiri þarfir en grundvallarþarfir líkamans einar.

Ég er ekki úrkula vonar um að hv. þm. Illugi Gunnarsson og félagar hans aðrir fleiri, rjóminn af Sjálfstæðisflokknum, sjái ljósið áður en það verður um seinan. Og þetta mál ber ekki brátt að, þetta er þriðja 1. umr. um málið.