Fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi

Miðvikudaginn 04. nóvember 2009, kl. 15:48:24 (0)


138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.

101. mál
[15:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og öllum hér og öllum sem hlýða á mál mitt er kunnugt hafa endurbætur á Suðurlandsvegi verið mjög í umræðunni undanfarin ár og virðist vera ákveðin samstaða um að rétt sé að ráðast í þetta verkefni og þessa framkvæmd. Hins vegar eru að sjálfsögðu breyttir tímar sem allir gera sér grein fyrir og erfitt með fjármögnun. Því tel ég rétt að beina þeirri fyrirspurn til samgönguráðherra hvað líði fjármögnun þessa verkefnis, enda mikilvægt að menn séu upplýstir um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem öðrum.

Helstu rök fyrir þessari framkvæmd hafa verið talin þau að það er mikil og vaxandi umferð um Suðurlandsveg, þar sé há slysatíðni og í þriðja lagi liggur fyrir að arðsemi tvöföldunarinnar er mikil, samanber skriflegt svar samgönguráðherra á Alþingi 11. ágúst sl. við fyrirspurn hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um miðjan síðasta mánuð var áréttuð afstaða sunnlenskra sveitarstjórnarmanna um nauðsyn þessarar tvöföldunar og þetta er forgangsatriði hjá sunnlenskum sveitarstjórnarmönnum. Það liggur fyrir að almenningur telur þessar framkvæmdir einnig mikilvægar samkvæmt nýgerðri skoðanakönnun Gallups. Þá liggur fyrir að skipulagsmál standa ekki í vegi fyrir því að hægt sé að hefja verkið.

Nú er hluti leiðarinnar tilbúinn til útboðs hjá Vegagerðinni, eftir því sem mér skilst. Arðsemismat liggur fyrir samkvæmt skýrslu frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens í ágúst 2007 og miðað við fréttir í fjölmiðlum er tvöföldun Suðurlandsvegar efst á lista Vegagerðarinnar í sambandi við átak með aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun. Hins vegar hefur fylgt þeim fréttum að lífeyrissjóðirnir setji það skilyrði fyrir aðkomu sinni að fjármögnuninni að tekin verði upp veggjöld á viðkomandi leið. Því held ég að það sé sérlega kærkomið tækifæri fyrir hæstv. samgönguráðherra að upplýsa okkur hér, þingið og íbúa Suðurkjördæmis, gesti þar og gangandi, um það hvort til standi að fjármagna þessa framkvæmd með veggjaldi. Það er einfaldlega brýnt að það liggi fyrir vegna þess að þetta kemur til með að hafa áhrif á það hvernig horft er til þessarar framkvæmdar.

Þess vegna hef ég beint til hæstv. samgönguráðherra fyrirspurn sem hljóðar svo:

Hvað líður fjármögnun ríkissjóðs á endurbótum á Suðurlandsvegi, annars vegar á kaflanum „Hólmsá – Hveragerði“ og hins vegar á kaflanum „Hveragerði – austur fyrir Selfoss“?