Fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi

Miðvikudaginn 04. nóvember 2009, kl. 15:56:06 (0)


138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.

101. mál
[15:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er mikið fagnaðarefni að fyrsti áfanginn í tvöföldun og breikkun á Suðurlandsvegi sé í uppsiglingu, að aðskilnaður akstursstefna á þessum slysaháa og umferðarþunga vegi verði jafnvel á næstu dögum eða vikum, a.m.k. fyrir lok þessa árs eins og mátti skilja hæstv. ráðherra áðan þó að hann hafi ekki nefnt dagsetningarnar. Það skiptir gífurlega miklu máli að hefjast handa við þetta verkefni eftir að ágæt samstaða náðist um útfærsluna á því sem ég held að sé bæði hagkvæm og sanngjörn á þessari leið. Hér er um að ræða gífurlega mikilvæga framkvæmd sem á fimm árum, frá því að umræðan hófst í rauninni um tvöföldun og breikkun á Suðurlandsvegi, hefur skapast mikil samstaða, bæði þverpólitísk og meðal þjóðarinnar, um að þetta sé mikilvægasta samgönguframkvæmd utan þéttbýlis á landinu öllu. Það er svo annað mál hvað varðar einkaframkvæmd og gjaldtöku. Það kemur aldrei til álita að tekin verði upp gjaldtaka á eina stofnbraut en ekki aðrar, það yrði þá að vera algjört jafnræði og einhverjar tæknilegar lausnir sem við sjáum ekki í dag. Á næstu mánuðum og missirum hljótum við að taka mjög djúpa og efnismikla umræðu um þau mál áður en nokkur ákvörðun verður tekin um það gagnvart nokkurri stofnbraut (Forseti hringir.) utan eða innan höfuðborgar.