Þjóðaratkvæðagreiðslur

Fimmtudaginn 05. nóvember 2009, kl. 11:54:02 (0)


138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Lýðveldið Ísland er ekki gamalt og saga þess ekki löng. Íslendingar máttu búa við stjórn erlends konungs öldum saman og því voru stigin mikil framfaraskref þegar fullveldinu var náð árið 1918 og svo með sjálfstæði þjóðarinnar 1944.

Þótt Alþingi sé eitt elsta þjóðþing heims og hafi starfað nánast árlega frá stofnun þess árið 930 til dagsins í dag, ef undan er skilið um 50 ára tímabil á 19. öld, er lýðræðisvitund landsmanna ekki svo sterk. Ég held þó að flestir Íslendingar hafi í gegnum tíðina álitið sem svo að lýðræðið sé hér fast í sessi og virki, einmitt vegna sögu Alþingis.

Í vetur kom svo að því að landsmenn settu fram kröfur um breytingar því að þeir vöknuðu upp við þann vonda draum að þeir reyndust vera nánast áhrifalausir þegar allt var hrunið. Stjórnvöld hlustuðu ekki og leituðu ekki samráðs. Sá farvegur sem fólkið fann fyrir kröfurnar var kröftug mótmæli sem hefðu auðveldlega getað orðið enn ofbeldisfyllri en þau urðu. Krafa samfélagsins hlýtur að vera að skapaður verði farvegur fyrir fólkið í landinu til að knýja á um að mál geti verið borin undir þjóðina með friðsamlegum hætti þegar þess gerist þörf.

Lýðræði hér á landi hefur því miður þróast út í flokksræði og fólkið í landinu hefur ekki verið spurt álits nema á fjögurra ára fresti. Sá möguleiki að 10% kosningarbærra manna geti með undirskrift sinni krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um stór og mikilvæg mál, svo sem Icesave-samninginn og umsókn um ESB-aðild, svo nefnd séu þau mál sem hafa verið hvað efst á baugi síðustu mánuði, veita bæði framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu nauðsynlegt aðhald sem hefur sárlega vantað. Í gegnum tíðina höfum við margoft orðið vitni að því að stjórnarflokkarnir hafa komið sínu fram með harðræði í stórum málum sem hafa klofið þjóðina í tvennt.

Almenningur er ekki ófær um að taka ákvarðanir um eigin framtíð. Fólkið í landinu hefur skoðanir og það á rétt á því að hafa áhrif og geta tekið afstöðu í mikilvægum málum. Nái þetta frumvarp fram að ganga mun þjóðin fá tækifæri til þess þegar mikið liggur við.

Þeir þröskuldar sem eru í frumvarpinu eru tveir og nokkuð háir. Annars vegar þurfa 10% kosningarbærra manna að skrifa undir áskorun. Þeir sem safnað hafa undirskriftum vita að það er ekki létt verk og 10% kosningarbærra manna eru margir, mjög margir Íslendingar. Ég mundi vilja sjá þá tölu lægri og þætti vænt um ef allsherjarnefnd skoðaði rækilega hvaða hlutfall sé eðlilegt og bæri saman við hlutfallið hjá þeim þjóðum sem hafa hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Þá getur þriðjungur alþingismanna einnig knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljóst er að það er mun auðveldara að ná þeim fjölda fram en 10% kosningarbærra manna. Í Danmörku er þetta með þessum sama hætti en reynslan hefur sýnt að þingmenn hafa aðeins einu sinni nýtt sér þann rétt sinn. Engu að síður er þessi heimild mikilvægur og nauðsynlegur öryggisventill og veitir meiri hlutanum það aðhald sem þarf svo ekki sé hægt að valta yfir menn og málefni, a.m.k. ekki í jafnríkum mæli.

Þá vil ég nota tækifærið og benda á nauðsyn þess að farið verði í nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar sem þarf að gera til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla geti orðið bindandi. Þar komum við að stjórnlagaþinginu sem var önnur hávær krafa fólksins hér í vetur og er löngu orðið tímabært að sjá stjórnvöld bregðast við þeirri kröfu.