Álversuppbygging á Bakka við Húsavík

Fimmtudaginn 05. nóvember 2009, kl. 13:58:21 (0)


138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra talaði áðan eins og hún hefði fundið upp hjólið og sendi heimamönnum þann tón að þeir væru að bíða ölmusu og þess að einhver kæmi til þeirra. Þvílíkur hroki sem þetta er. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra tók í sama streng í umræðu sinni um stóriðju. Hann sagði m.a. að vafasamt væri að efnahagsleg rök mæltu með frekari uppbyggingu stóriðju og að langtímaáhrif orkufreks iðnaðar og atvinnustigs væru engin því að þau ryddu annarri atvinnu burtu. Þetta segir hann þrátt fyrir að nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segi allt annað og að reynslan sýni okkur að alls staðar verða fyrirtæki í orkufrekum iðnaði ný kjölfesta í atvinnulífi á viðkomandi svæði. Þau hafa í för með sér bættar samgöngur í lofti, á láði og á legi. Það verður algjör viðsnúningur í búsetuþróun og fjölmörg ný fyrirtæki í verslun og þjónustu skjóta rótum.

Reynslan sýnir einnig að orkufrekur iðnaður eykur blómlegt menningar- og menntalíf á þeim svæðum þar sem hann byggist upp. Hann verður grunnur að byggingu nýrra leikskóla og aukinni opinberri þjónustu. Framboð á fjölbreyttara húsnæði eykst og fasteignaverð hækkar. Áhrif álvers á Bakka munu m.a. leiða af sér fólksfjölgun á svæðinu um meira en þúsund manns, fjölga störfum í Þingeyjarsýslu um a.m.k. 500 og um 200 á Eyjafjarðarsvæðinu. Þá munu á annað þúsund afleidd störf skapast í samfélaginu. Framkvæmdir væru stór þáttur í að auka útflutningsverðmæti og hagvöxt í landinu. Þær stuðla að betri nýtingu á innviðum samfélagsins. Samfara stóriðjuframkvæmdum eykst líka áhersla á umhverfismál og sjálfbært samfélag. Árin 2001–2006 greiddu orkuveitufyrirtæki ríflega milljarð í verkefni á vegum umhverfismála og yfir 500 millj. kr. í styrki vegna rannsókna og vísinda, m.a. sem tengjast umhverfismálum.

Ég held, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn sé búin að sýna okkur að það er engin samstaða um uppbyggingu atvinnulífs í þessu landi ef (Forseti hringir.) menn leyfa henni að ráða. Það verða aðrir flokkar að koma að þar sem vægi atvinnusköpunar og vinnu í þessu landi er meira áherslumál en raun ber vitni. (Gripið fram í.) Nei.