Vörumerki

Fimmtudaginn 05. nóvember 2009, kl. 16:55:14 (0)


138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er kannski ekki alveg rétt með farið að ég hafi talið þetta mál vera mjög slæmt. Dómurinn er hins vegar fallinn og við þurfum að hlíta þeim dómi.

Ég vil spyrja hv. þingmann á svipuðum nótum og fyrri fyrirspyrjandi. Það mátti skilja á ræðu hans að hann sé ekki sérstaklega hrifinn af EES-samningnum. Ég er að velta fyrir mér: Hver er þá valkosturinn? Að hverju er hann að ýja? Er það stefnubreyting hjá Sjálfstæðisflokknum að nálgast EES-samninginn með þessum hætti? Það væri ágætt að fá svar við því.

ESB er ekki gallalaust, ég hef aldrei fullyrt að það sé gallalaust. Ég tel hins vegar að ESB sé sérstaklega mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið í landinu. Ég veit, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn og sérstaklega hv. þingmaður setur hagsmuni atvinnulífsins ofarlega, að atvinnulífið í þessu landi hefur kallað eftir því að við tökum djúpa umræðu um ESB og skoðum það alvarlega hvort við getum ekki horft til sambandsins vegna þess að við erum í mjög miklum efnahagslegum vandræðum. Að því leytinu til vil ég líka bæta við að fyrir mér kristallast í EES-samningnum aðgangur að innri markaði Evrópusambandsins og þess vegna ber að varðveita hann. Mér þætti því athyglisvert að vita skoðun Sjálfstæðisflokksins á því.