Hlutafélög og einkahlutafélög

Fimmtudaginn 05. nóvember 2009, kl. 18:08:52 (0)


138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[18:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er akkúrat slíkur grundvöllur sem hv. þingmaður nefnir, grundvöllur til að allir fái notið sín, sem ég vil ná fram með þessari breytingu. Af því að hv. þingmaður nefndi áðan þyngri dóma eða að karlmenn sættu frekar refsingu vegna glæpa og þó væru þeir væntanlega ekki glæpahneigðari en konur, ætla ég að benda á að það er nákvæmlega félagsmótunin, það er mjög fastmótað samfélagskerfi sem gerir það að verkum að karlmenn fremja frekar glæpi, þeir taka jafnframt frekar líf sitt. Kynjaskekkjan í samfélaginu er því langt frá því þannig á öllum sviðum að það halli á konur því að fyrir karlmenn er hún ákaflega flókin líka, en það er nákvæmlega þetta samfélagsmunstur sem við verðum að breyta konum og körlum til hagsbóta.

Þetta er róttæk tillaga til að hafa áhrif með mjög beinum hætti, annars gætum við þurft að bíða í um 50 ár og mér finnst alveg óþarfi að gera það þegar við höfum vald til að grípa inn í þetta. Það má nefna sem dæmi lögin um fæðingarorlof, ég held að engin einstök löggjöf hér á landi eftir kosningarétt kvenna hafi haft sambærileg áhrif á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Löggjafinn getur því svo sannarlega gripið til meðala til að ná fram jafnrétti án þess að ganga með nokkru móti á rétt karla. Fyrirtæki hafa úr gríðarlegum fjölda hæfileikaríkra vel menntaðra kvenna að velja og eins og ég benti á áðan hefur menntunarstig í stjórnum fyrirtækja í Noregi aukist við það að konum fjölgaði. Þannig að þetta er tillaga sem er til hagsbóta og til þess að jafna tækifæri.