Nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Föstudaginn 06. nóvember 2009, kl. 15:03:35 (0)


138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð síðasta ræðumanns um það að íslensk þjóð stendur frammi fyrir góðum tíma til lengri tíma litið. Við þurfum að brúa ákveðna gjá sem hefur myndast í eitt, tvö eða þrjú ár og við þurfum að brúa þá gjá skynsamlega þannig að við getum mætt framtíðinni með jákvæðri uppbyggingu á þjóðfélaginu. Því miður kunna tillögur ríkisstjórnarinnar sem eru afskaplega hefðbundnar — þetta eru skattahækkanir, skerðingar o.s.frv., afskaplega hefðbundið, þetta er allt saman inni í kassanum — að leiða til þess að þessi gjá dýpki og breikki og verði jafnvel illfær til langframa.

Íslensk heimili og fyrirtæki hafa sýnt ótrúlegan sveigjanleika á þessu eina ári frá því að kreppan hófst, alveg ótrúlegan, og þann sveigjanleika og dugnað eigum við að nýta, frú forseti. Við þurfum að auka atvinnu. Hver maður sem verður atvinnulaus hættir að borga skatta af 500.000 kr., fer niður í bætur sem hann borgar mjög litla skatta af og eru auk þess peningar sem fara í hring. Segja má að ríkissjóður tapi um 4 millj. kr. fyrir hvern einasta mann sem verður atvinnulaus og það öfuga gerist ef einhver hættir að vera atvinnulaus. Þess vegna er mikilvægt að auka atvinnu. Það þurfum við að gera með því að auka kvóta, við þurfum að skoða það, og við þurfum að skoða þær eignir sem við eigum hjá lífeyrissjóðunum og nota það í eitt skipti til að brúa þessa gjá þannig að hún verði ekki djúp og breið.

Ég ætla að benda á að það sem ríkisstjórnin er að gera er að hækka skatta, hækka tryggingagjald, sem þýðir að störfin verða dýrari, hún er að skerða framlög jafnvel til varanlegs tjóns, t.d. í menntakerfinu. Við þurfum að gæta okkar vel á því að skerða ekki velferðarkerfið varanlega til tjóns. En ég ætlaði að fara yfir hugmyndina um skattlagningu á séreignarsparnað en sá sparnaður er mjög sér á báti. Hann er ekki tengdur öðrum tryggingakerfum á neinn beinan hátt og fólk hefur yfirleitt byrjað séreignarsparnað til þess annaðhvort að bæta við þann lífeyrissparnað sem er úr almannatryggingum og lífeyrissjóðum eða til að geta flýtt töku lífeyris.

Yfirleitt er það þannig, frú forseti, að þegar menn ætla að hafa þann möguleika að flýta töku lífeyris — þegar á hólminn er komið þá gera þeir það ekki, þannig að þessi lífeyrir mun yfirleitt koma til viðbótar við annan lífeyrissparnað og þá eru menn komnir yfir tekjumörkin. Það skiptir því ekki máli fyrir fólk hvort það borgar skattinn strax eða seinna.

Tölurnar sem við erum að tala um eru þær að í séreignarsparnaði verða væntanlega um 300 milljarðar um næstu áramót og tekjuskattur af því, ef það er allt skattlagt í eitt skipti fyrir öll, gæfi ríkissjóði 75 milljarða í staðgreiðslu og sveitarfélögunum 40 milljarða. Ég bendi á að sveitarfélögin fengju líka 40 milljarða með þessari aðferð. Einhver kann að segja að þetta sé hókus pókus. Auðvitað, við erum að taka eign sem ríkið á og selja hana og það sem hægt er að gera — lífeyrissjóðirnir gætu gefið út skuldabréf til skattstofu, til sveitarfélaganna sem þau greiddu skattinn með. Þessi skuldabréf eru í stöðluðum einingum sem ríki og sveitarfélög gætu svo selt á markaði og þar með væri búið að búa til peninga úr þessari eign fyrir sveitarfélögin ef þau kæra sig um og ríkið, og þeir sem eru að spara, séreignarsjóðirnir, verða ekki varir við þetta. Þeir mundu gefa út skuldabréf með sömu gjalddögum eða nálægt því sömu gjalddögum og falla til greiðslu hjá fólkinu sem er tryggt þannig að í rauninni yrði enginn var við þetta nema að eftir þetta er sparnaðurinn skattfrjáls. Svo mætti að sjálfsögðu slá þann varnagla að það fólk sem lendir undir skattleysismörkum við útgreiðslu fengi skattinn bara endurgreiddan. Þetta er hægt að útfæra á þann hátt að það kemur ekki við nokkurn mann, hvorki þann sem er að spara né séreignarsjóðina sjálfa. Ríkið og sveitarfélögin yrðu sparendur hjá séreignarsjóðunum og ríki og sveitarfélög fengju nauðsynlegt lausafé.