Nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Föstudaginn 06. nóvember 2009, kl. 15:31:07 (0)


138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna hér í dag og þegar henni var ýtt úr vör hér fyrir nokkrum dögum síðan. Hér hafa komið fram ólík sjónarmið og það hefur verið ágæt þátttaka í umræðunum, nema svo sem af hálfu stjórnarliðanna. Mér skilst að enginn stjórnarliði sé í húsinu, ég sé að stjórnarliðarnir eru ekki hérna í salnum en mér er tjáð að það sé enginn þeirra í Alþingi í dag, a.m.k. ekki undir þessari umræðu.

Það komu nokkur váleg tíðindi fram í máli hæstv. forsætisráðherra undir umræðu utan dagskrár — kemur þá einn stjórnarliðinn í salinn — þar sem fram kom að það stefndi í halla á ríkissjóði sem yrði yfir 250 milljarðar. Fyrir mér voru þetta ný tíðindi. Ég hef nýlega lesið hér skýrslu um framkvæmd fjárlaga frá ríkisendurskoðanda þar sem voru allt aðrar tölur varðandi hallann á rekstri ríkissjóðs en það kunna svo sem að vera skýringar á þessu. Ég gef mér að í þessari stóru tölu sem forsætisráðherra vék að, sé búið að taka með áætlaða vexti vegna Icesave-lánanna og einhverja slíka þætti, en þetta eru gríðarlegar tölur. Og jafnvel þótt að einungis verði miðað við tölurnar sem eru í skýrslu ríkisendurskoðanda upp á 182 milljarða, er það alveg feiknarlega mikið verkefni fyrir okkur að snúa rekstri ríkissjóðs úr halla yfir í jafnvægi og afgang sem allra fyrst.

Ég held að það sé vel gerlegt að vinna það verk á tiltölulega skömmum tíma. Lagt hefur verið upp með það í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þeirri áætlun sem íslensk stjórnvöld sömdu um í samstarfi við sjóðinn að þetta gæti tekist á fáeinum árum. Við erum þeirrar skoðunar líka í Sjálfstæðisflokknum og við bendum á leiðir í tillögum okkar sem við fjöllum hér um. Þær snúast um að við komum efnahagsstarfseminni aftur í gang án þess að leggja nýjar og auknar byrðar á einstaklinga, heimili og fyrirtæki.

Í skýrslu ríkisendurskoðanda frá því í október kemur nokkuð fram sem ég ætla að lesa, það er í niðurstöðukafla skýrslunnar á bls. 5. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær skattbreytingar sem gerðar voru um mitt ár virðast hins vegar ekki ætla að skila nema hluta þess tekjuauka sem stefnt var að þótt þær kunni að hafa forðað því að tekjur drægjust meira saman en reiknað var með.“

Sem sagt, auknir skattar skila ekki þeim tekjuauka sem menn reikna inn í exelskjalið hjá sér. Vissulega hefur þetta skilað einhverjum tekjum, en ekki í þeim mæli sem að var stefnt. Ég held að sé auðvelt að nefna til sögunnar fjölmörg dæmi um þetta. Eitt augljóst dæmi eru auknar álögur á áfengi og tóbak, sérstaklega á áfengið. Þar hefur dregið stórkostlega úr sölu, álagningin hefur einfaldlega valdið því. Og það er þekkt að heimabrugg færist í vöxt þegar menn fara yfir ákveðin þolmörk í auknum álögum á áfengi. Ég held að sé vert fyrir okkur að taka það til sérstakrar skoðunar hér á þinginu, kalla eftir upplýsingum um það hver er í raun og veru niðurstaðan af nýju sköttunum frá þessu ári. Hér er lagt upp með að á næsta ári verði haldið áfram á sömu braut.

Það sem er hins vegar alvarlegast við nýju skattana sem ríkisstjórnin horfir til eru skattar þar sem fjárfesting að utan er fæld í burtu. Við þurfum á fjármagni að halda inn í íslenskt efnahagslíf, ekki síst í orkugeiranum. Þar eru á teikniborðinu ýmis spennandi verkefni sem geta fært okkur ný störf og aukinn virðisauka. Við eigum að nýta þau tækifæri miklu betur en ríkisstjórnin er tilbúin til að gera. Hún hefur verið mjög ósamstæð og hefur í raun ekki staðið við stöðugleikasáttmálann er sem nú kominn í uppnám. Einstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið til mikils skaða. Það hefur t.d. verið mjög undarlegt að hlýða á hæstv. umhverfisráðherra um ákvörðun hennar frá því núna í haust vegna Suðvesturlínu og þá umræðu sem fór af stað í kjölfarið um að menn væru að gera allt of mikið úr þessu máli. Þá heyrist það oft hjá þingmönnum Vinstri grænna í umræðu um orkumálin að þetta skipti svo sem ekki öllu máli vegna þess að fjármagnið sé ekki til staðar. Og hæstv. umhverfisráðherra gekk svo langt að tala um að Orkuveita Reykjavíkur væri veikt félag sem ætti í erfiðleikum með að fjármagna sig. Í millitíðinni hefur hins vegar komið í ljós að Orkuveitunni standa til boða lán. Orkuveitan hefur fengið lán frá Evrópu á kjörum sem eru framúrskarandi í raun og veru, einungis 40 punkta álag á Liborvexti, og allt það sem sagt var um veika stöðu þess fyrirtækis hefur þannig fallið um sjálft sig.

Við þurfum að koma hjólum efnahagsstarfseminnar og atvinnustarfseminnar aftur í gang. Það gerum við með því að hafa skýra sýn, taka af dagskrá ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur verið með á prjónunum, eins og t.d. að fyrna aflaheimildir, það veldur óvissu og óöryggi í greininni. Það þarf að hætta við slík áform. Það þarf að tala skýru máli í orkunýtingarsamhengi um þau verkefni sem eru því sem næst tilbúin til þess að hefja fyrsta áfanga með, eins og t.d. á Suðurnesjunum. Þar þarf að koma skýr leiðsögn frá stjórnvöldum, þannig að óvissunni og óörygginu verði eytt og við getum hafist handa við að skapa hér störf og verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Það þarf að láta af hugmyndum um auknar álögur, nýja skatta á atvinnustarfsemi og einstaklinga, sem glíma nú þegar við afar erfiðar ytri aðstæður og horfa til annarra leiða eins og þeirra sem við vekjum athygli á hér í tillögu okkar. Ég hygg að hugmyndin um að færa til í tíma skattlagningu á séreignarsparnaði sé sú sem við ættum í raun og veru að ræða hér miklu meira en við höfum gert.

Hæstv. forsætisráðherra gerði okkur grein fyrir því fyrr í dag að hún teldi óráðlegt að breyta skattlagningu á almenna lífeyrissjóðakerfinu þannig að inngreiðslurnar yrðu skattlagðar en ekki útgreiðslurnar. Jafnvel þótt menn horfi fram hjá þeim möguleika höfum við áfram tækifæri til þess að nýta séreignarsparnaðinn og gera þá breytingu sem getur skilað okkur u.þ.b. 100 milljörðum og dregið úr þörfinni fyrir nýjar lántökur.

En ég minntist áðan á skýrslu ríkisendurskoðanda. Hún ætti að vera okkur mikið áhyggjuefni, vegna þess að í henni kemur fram að núna á því ári sem er að líða, 2009, stefnir í að halli ríkissjóðs verði u.þ.b. 30 milljörðum meiri en að var stefnt. 30 milljarðar, það er u.þ.b. hálft söluandvirði Landssímans á sínum tíma, hann var seldur fyrir rúma 60 milljarða á verðlagi þess árs. (Gripið fram í: Hann var aldrei borgaður.) 30 milljarðar, það er um það bil þriðjungurinn af því lánsfé sem við vorum að fá aðgang að nú um daginn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum. Heildarfjárhæðin þar var í kringum 100 milljarðar. Sú lánveiting var m.a. hugsuð til þess að fjármagna hallann á ríkissjóði.

Á þessu ári var að bætast við 30 milljarða vandamál til viðbótar við það sem við vissum um fyrir. Það er ekki verið að taka á útgjaldaramma ríkisfjárlaganna nægilega föstum tökum. Það er ekki verið að vinna hratt og örugglega í nefndum þingsins, t.d. til þess að tryggja að við stöndum okkur betur í því að halda ramma fjárlaganna og ríkisstjórnin er á villigötum þegar kemur að leiðum til þess að auka tekjur ríkisins að nýju. Við þurfum ríkisstjórn sem hefur stefnufestu, sem gerir það sem er skynsamlegt og það sem er augljóst að við eigum að gera, að nýta tækifærin, láta það sem er í lagi í friði, eins og t.d. í sjávarútveginum, og einbeita sér að því að skapa sátt um leiðir til þess að skera niður og umræðu og samstöðu um leiðir til þess að auka tekjurnar.

Okkar framlag í þessa umræðu eru þessar efnahagstillögur. Ég vil þakka fyrir ágætar umræður um þær. Ég óska eftir því að málið fari til frekari umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd.