Framlög til menningarmála

Miðvikudaginn 11. nóvember 2009, kl. 15:28:25 (0)


138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framlög til menningarmála.

134. mál
[15:28]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil sérstaklega þakka fyrir niðurlagið í ræðu hæstv. menntamálaráðherra hér áðan. Ég get tekið undir hvert einasta orð sem þar var sagt. Mig langar þó aðeins að velta upp einu sem varðar framlög til menntamála og það snýr að menningarráðunum sem eru tiltöluleg nýjung, þ.e. menningarráðin úthluta til sjálfsprottinna menningarverkefna og taka að hluta til yfir menningarframlög sveitarfélaganna. Hver verða afdrif menningarráðanna núna á næstu árum? Hefur menntamálaráðuneytið í hyggju að endurskoða þau og þá á hvern hátt?

Spurning númer tvö lýtur að því hvort núna þegar þrengir að sé ekki þarft að skerpa aðeins á heildarstefnumótun fyrir menningarráðin í byggðarlögunum. Við vitum að það er brýnt þegar þarf að skera niður fé að styðja vel við það sem búið er að koma á laggir þannig að það eigi sér lífsvon áfram og velja (Forseti hringir.) þeim mun betur nýrri verkefni. Í því samhengi langar mig (Forseti hringir.) að spyrja nánar út í þetta.