Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 12:02:30 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra kom að kjarna málsins. Málið er í slíku stjórnskipulegu uppnámi að byrjað var á því á vitlausum enda eins og ég benti margoft á í sumar þegar þetta var rætt. Auðvitað var því farsælast að breyta stjórnarskránni og leyfa þetta fullveldisafsal með ákvæði um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en að fara í kringum málið með þessum hætti, að koma heim með samning sem þjóðin neitar í þjóðaratkvæðagreiðslu, að eyða til þess eitt þúsund milljónum a.m.k., í stað þess að fara með þetta eftir lögformlegum leiðum eins og Norðmenn og Danir gerðu þegar þeir sóttu um aðild að Evrópusambandinu. Þá var það fyrir fram ákveðið að hægt væri að veita þetta fullveldisafsal og hjá Dönum var það gert með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frú forseti. Þetta ESB-mál er mjög einkennilegt og að þjóðaratkvæðagreiðsla sé boðuð í sambandi við það. En það breytir því ekki að ég er hlynnt meginefni frumvarpsins. (Forseti hringir.) Því er nauðsynlegt að setja hér skýra löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur, hvort sem þær eru bundnar í stjórnarskrá eða ekki.