Fjárhagsstaða dómstóla

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 13:42:47 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:42]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég tel að hér sé um afar brýnt mál að ræða og ég deili áhyggjum hv. þingmanns af stöðu dómstólanna í augnablikinu. Ég verð þó að segja að ég tel, eins og hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt hér áður, að ákveðnar skipulagsbreytingar þurfi að eiga sér stað á dómstólunum í landinu, ekki bara með tilliti til sparnaðar, heldur ekki síst, og það hafa þeir aðilar sagt sjálfir sem komið hafa fyrir allsherjarnefnd, að það er mjög mismunandi álag á dómstólum landsins eftir staðsetningu. Álagið er auðvitað langsamlega mest hérna á suðvesturhorninu og fyrirsjáanlega verður álagið mun meira hér en annars staðar. Við horfum upp á afleiðingar af bankahruninu endurspeglast í fjölgun mála í dómskerfinu og í dómstólunum og þá skiptir auðvitað mjög miklu máli að það sé skilvirkni og að mál geti gengið hratt fyrir sig.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það er fyrirsjáanlegt að mál frá sérstökum saksóknara muni koma til dómstólanna. Ég get alveg endurtekið það sem ég hef áður sagt hér í þessum ræðustól, að ég tel að það hafi verið mistök að gera 10% hagræðingarkröfu á þrjá tiltekna þætti í starfsemi dómsmálaráðuneytisins, þ.e. fangelsismál, lögreglu og dómstóla, vegna þess að allir þessir þrír þættir hanga saman. Góð afkastageta lögreglu skilar sér beint til dómstóla, afkastageta dómstóla skilar sér beint inn í fangelsin þannig að ég tel að við hefðum átt að fara varlega gagnvart þessum þremur þáttum þar sem fyrirsjáanlegt er að aukning verði þar á næstunni. Við eigum reyndar eftir að afgreiða fjárlög endanlega og ég vona að tekið verði tillit til þess þegar fjárlögin verða afgreidd hér frá þinginu, ég er sammála hv. þingmanni í því. Ég tel reyndar, (Forseti hringir.) frú forseti, að það sé þverpólitísk samstaða hér í þinginu um (Forseti hringir.) að þessa þrjá þætti þurfi að skoða mjög vandlega. (Forseti hringir.)