Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 15:03:11 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:03]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Það er auðvitað ómögulegt að segja til um það á þessari stundu hvernig málum vindur fram varðandi aðildarviðræður um inngöngu okkar í Evrópusambandið. Það er nýlega búið að skipa samninganefnd og viðræður eru að fara af stað þannig að ef ég á að vera alveg hreinskilin við hv. þingmann á ég mjög erfitt með að svara því hér og nú.

Hins vegar finnst mér aðalatriðið í þessu máli vera, eins og kom fram þegar við ræddum þingsályktunartillöguna um Evrópusambandið í sölum Alþingis, að á grundvelli niðurstaðna viðræðna verða þær niðurstöður settar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem vissulega er ráðgefandi. Sú niðurstaða kemur síðan til kasta Alþingis og þá er það okkar sem sitjum á Alþingi á þeim tíma, hvenær sem það verður, að taka afstöðu til þess hvort lengra verður gengið eða hver niðurstaðan verður í framhaldinu.