Yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 21:51:12 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:51]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikið ánægjuefni ef allt þetta snýr bara að því að breyta hugtakinu og að ekkert annað standi til af hálfu ríkisstjórnarinnar þannig að það sem áður var kallað sérstakt kosningaloforð um að aflétta mesta óréttlæti Íslandssögunnar, er orðin breyting á skilgreiningu á hugtaki. Auðvitað er það ekki svo, frú forseti. Auðvitað er verið að tala um það sem stendur í stefnuyfirlýsingunni að innkalla og endurráðstafa aflaheimildum á 20 ára tímabili, nema hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sé tilbúin að koma upp og lýsa því yfir að það eigi síðan að láta sanngjarna greiðslu koma á móti, sem er auðvitað ekki hugmyndin.

Enn á ný hlýt ég að spyrja: Hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Ástæðan fyrir að ég spyr er vegna þess að þetta er mikilvægt. Þetta fjallar um grundvöll sjávarútvegs á Íslandi við mjög erfiðar aðstæður. Ég spyr þingmanninn þess vegna aftur, og hér er ekki talað úr neinum skotgröfum, þetta er bara eðlileg spurning þingmanns á Alþingi Íslendinga til annars hv. þingmanns sem leggur til þessa grundvallarbreytingu á sjávarútveginum: Telur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, miðað við núverandi skuldastöðu að ef aflaheimildirnar eru innkallaðar bótalaust án þess að viðkomandi útgerðir fái neitt til baka en standi áfram með skuldirnar, það líklegra að þessar útgerðir geti greitt skuldir sínar til baka eða telur hún að það sé ólíklegra? Það skiptir miklu máli. Hér er ekki talað úr neinni skotgröf. Hér er mjög einföld spurning sem er beint til hv. þingmanns.

Ég vil líka að lokum taka undir það sem kom fram hjá einum hv. þingmanni, Gunnari Braga, sem sagði þetta: Það fer ekki vel á því þegar menn fullyrða eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði í ræðu sinni. Hún sagði: Þjóðin hefur þessa skoðun og Landssamband ísl. útvegsmanna skal passa sig á að fara ekki gegn skoðun þjóðarinnar. Þetta fer ekki vel í pólitískri umræðu og það er rangt hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún sagði að hún teldi sig ekki vera einhvern handhafa þjóðarvilja. Það mátti svo augljóslega lesa úr ræðu hv. þingmanns og heyra af máli hennar áðan, því miður.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að nefna þingmenn með fullu nafni.)