Yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 22:48:20 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:48]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Eitt af markmiðum þess starfshóps sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað er að svara áliti sem liggur fyrir frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Það er einn af þeim þáttum í starfi þessa hóps sem lítið hefur verið fjallað um í kvöld en ég tel afar mikilvægt að það sé gert vegna þess að að mínu mati og margra annarra hefur það ekki verið gert með fullnægjandi hætti.

Menn hafa verið að ræða hér tilurð kvótakerfisins og farið svolítið aftur í söguna og því langar mig að minnast á ágætissjónvarpsviðtal sem var tekið við Hannes Hólmstein Gissurarson í Íslandi í dag, mjög lýsandi sjónvarpsviðtal sem margir hafa skoðað upptöku af á netinu síðustu mánuði og missiri. Hann lýsti því að mönnum hefði hugkvæmst að breyta fiskinum í sjónum í peninga sem fóru að vinna fyrir okkur og hann segir, með leyfi forseta:

„Svo einkavæddum við bankana sem voru steindauðir og hugsið hvað það verður nú gaman þegar bankarnir eru orðnir 7- til 10-faldir á við stærð íslenska hagkerfisins, ef við gætum bara gefið í,“ sagði talsmaður einkaeignarréttarins í sjávarútvegi. Þetta var einmitt í tengslum við kynningu hans á fyrirlestri sem ég held að hafi verið kallaður Íslenska efnahagsundrið. Þorvaldur Gylfason lýsti því svo í Skírni, með leyfi forseta:

„Fyrir aldarfjórðungi ákváðu stjórnmálamenn að afhenda útvegsmönnum ókeypis aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þessi rangláta ákvörðun, sem allir flokkar á þingi báru sameiginlega og sinnulausa ábyrgð á, skerti svo siðvitund stjórnmálastéttarinnar, að þess gat ekki orðið langt að bíða að aðrar jafnvel enn afdrifaríkari ákvarðanir af sama tagi sæju dagsins ljós. Því skyldu menn, sem víluðu ekki fyrir sér að búa til nýja stétt auðmanna með ókeypis afhendingu aflakvóta í hendur fárra útvalinna, hika við að hafa svipaðan hátt á einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja? Því hlaut að fara sem fór. Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið.“

Hv. þm. Illugi Gunnarsson er örugglega ekki sammála þessari fullyrðingu Þorvaldar Gylfasonar. Ef til vill skrifar hann upp á þá söguskýringu að það hafi í raun verið Sighvatur Björgvinsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hæstv. forseti Alþingis, sem klúðruðu einkavæðingu bankanna. Og ef til vill skrifar hann líka upp á þá vandræðalega risavöxnu söguskýringu að í raun hafi framsalsheimildin á ábyrgð Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks leitt til óánægjunnar með kvótakerfið, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson leyfði sér að halda hér fram fyrr í dag, líkt og kerfið hafi verið meitlað í stein þau 18 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrði sjávarútvegsmálum á Íslandi.

Svo farið sé hratt yfir sögu var það svo að samkvæmt dómi Hæstaréttar 1998 gekk kvótakerfið gegn jafnræðis- og atvinnufrelsisákvæðum í stjórnarskránni í svokölluðu Valdimarsmáli, en rétturinn skipti um skoðun árið 2000. Síðari dómurinn og annar eins voru kærðir til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, en þar sitja 18 af fremstu mannréttindasérfræðingum heims. Nefndin úrskurðaði að fiskveiðistjórnarkerfið bryti gegn alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða. Þá steytir kerfið einnig á jafnræðisákvæðum í stjórnarskránni. Úrskurði mannréttindanefndarinnar verður ekki áfrýjað.

Ókeypis afhending aflakvóta allar götur frá 1984 færði útvegsmönnum að undirlagi þeirra sjálfra mikið fé sem frjálst framsal kvótanna eftir 1990 gerði þeim kleift að nota til að steypa sér í skuldir og blása upp efnahagsreikninga bankanna með því að veðsetja kvótann sem á þó að heita sameign þjóðarinnar að lögum. Veðsetningarheimildin var leidd í lög 1997, skömmu áður en einkavæðingu bankanna var hrundið af stað.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna byggði úrskurð sinn á að ókeypis úthlutun aflakvóta til þeirra sem stunduðu veiðar 1980–1983 bryti gegn 26. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er samhljóða 65. gr. stjórnarskrár okkar. Úthlutunarregla laganna fullnægir ekki þeirri kröfu að allir sitji við sama borð, séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda án tillits til efnahags.

Úrskurður mannréttindanefndar er í höfuðatriðum samhljóða dómi Hæstaréttar í máli Valdimars Jóhannessonar gegn ríkinu 1998. Báðir úrskurðir eru reistir á þeirri skoðun að mannréttindi séu algild og verði því ekki hneigð eða sveigð að öðrum hagsmunum. Frjálst framsal var æskilegt af hagkvæmnisástæðum, en það krafðist réttlátrar og löglegrar úthlutunar í upphafi. Þarna er rót vandans í þessu kerfi að mínu mati og margra annarra sem fjallað hafa um þetta mál.

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð í kvöld um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Ég hef lýst skoðun minni á henni og tel að hún sé fullkomin tímaeyðsla af hálfu þingsins. Það væri miklu nær að taka efnislega umræðu um þetta mál, bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og í sölum þingsins. Menn hafa ekki skorast undan því að ræða þetta, en að leggja fram tillögu sem felur í sér að ákveðin leið sé ekki rædd, hún sé ekki á dagskrá, hún valdi svo mikilli óvissu, er einfaldlega ekki boðlegt í þessari umræðu, ekki boðlegt í stjórnmálalegri umræðuhefð á Íslandi, að ýta málum, málefnum og málaflokkum út af borðinu með þessum hætti. Það höfum við séð áður gert þegar fjallað hefur verið t.d. um aðild Íslands að Evrópusambandinu, menn hafa haldið því fram að málið væri bara einfaldlega ekki á dagskrá. Það hefur að mínu mati leitt okkur í gríðarlegar ógöngur, sérstaklega þegar litið er til efnahagshrunsins og þess hvernig okkar eigin örlitli gjaldmiðill fór með okkur í því.

Ég vil líka, virðulegur forseti, brýna talsmenn stjórnarandstöðunnar hér í kvöld til að tala ekki af þeirri lítilsvirðingu og því yfirlæti til þingmanna með brýningum um að þeir þekki ekki nægilega vel til þess máls sem þeir fjalla um. (Gripið fram í.) Það er ömurleg rökræðulist að ásaka andstæðingana um þekkingarleysi og vísa sífellt til þess að þeir þurfi að lesa betur heima, tala við hina og þessa og kynna sér betur sjónarmið. Er ekki betra þá að ræða þau sjónarmið sem menn færa fram máli sínu til stuðnings?

Þá er virkilega til vansa sá siður í þinginu að alhæfa í nafni andstæðinga sinna og mótmæla svo alhæfingunni, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði hér í kvöld. Hann sagði spunameistara annars flokksins búa til þá mynd að í hópi útgerðarmanna væru ekkert nema bófar og bandítar. Hver hefur sagt hér í kvöld, virðulegur forseti, að í hópi útgerðarmanna væru ekkert nema bófar og bandítar? Það væri ágætt að hv. þingmaður útskýrði fyrir þingheimi hver hefði notað þau orð. Er það nokkur nema hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem hefur haldið því fram og notað það sérstaka orðalag? Svo fór hann í rökræðu við sjálfan við sig um það hvað það væri dónalegt að nota þessi orð. Það er ömurlegur siður að alhæfa svona í nafni annarra og fara svo í rökræður við þá á grundvelli þess. Enginn nema fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, hefur talað um bófa og bandíta hér í kvöld.

Ég hvet til þess að menn reyni eftir fremsta megni í þessari umræðu allri sem hefur einkennst af gríðarlegum tilfinningahita og mikilli heift sem hefur gengið fram úr öllu hófi að vanda málflutning sinn og tala af hófsemd og kurteisi og mildi, sérstaklega þegar svo langt er liðið fram á kvöld.