Sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 17. nóvember 2009, kl. 14:31:36 (0)


138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja athygli á þessu þarfa máli þar sem ég vil tala fyrir miklum möguleikum og bjartri framtíð á þessu sviði. Blessunarlega hafa Íslendingar fjárfest dável og ríkulega í heilbrigðisþjónustu á síðustu árum og uppbygging á því sviði um allt land hefur verið til fyrirmyndar. Þá vek ég líka athygli á því að Íslendingar hafa fjárfest mjög í námi á þessu sviði og þar höfum við veðjað á réttan hest vegna þess að með því höfum við skapað ríkulega fjölbreytni í störfum víða um land. Þessa fjárfestingu, hvort heldur er í fólki eða fasteignum, þurfum við að mínu viti að nýta með margvíslegum hætti. Þar horfi ég til innflutnings á sjúklingum, ef hægt er að tala um innflutning í þeim efnum. Þar eru mörg tækifærin, hvort heldur er frá Grænlandi eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan eða frá öðrum Norðurlöndum, Ameríku og fleiri ríkjum. Þetta má þó aldrei verða til þess að við lækkum þær gæðakröfur sem við gerum til þjónustu okkar eigin fólks. Þetta má aldrei bitna á þeirri þjónustu sem skal vera fyrir hendi til handa sjúku fólki á Íslandi, fötluðum og gamalmennum. Þetta á alltaf að vera viðbót við þá þjónustu sem hér er en tækifærin eru fyrir hendi vegna þess, og þar kemur forsenda þessa alls, að við höfum fjárfest í fólki og fasteignum (Forseti hringir.) og þær fjárfestingar ber að nýta í þessu efni fólkinu og fasteignum til heilla.