Náttúruverndaráætlun 2009--2013

Þriðjudaginn 17. nóvember 2009, kl. 17:19:03 (0)


138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég er gríðarlega ánægð með að nú standi til að málið fái mikla, ítarlega og efnislega umfjöllun í umhverfisnefnd og tel það vera mikla hreinskilni hjá hæstv. ráðherra að upplýsa hvers vegna þessi hamagangur var í nefndinni og þakka henni fyrir. Það hlaut að vera að eitthvað byggi að baki og ég man eftir að hafa lýst því yfir í þessum ræðustól að sem nýjum þingmanni hefðu þessi vinnubrögð ofboðið mér algjörlega. Þetta er ein af verstu minningunum sem ég á frá þessu sögulega sumarþingi þannig að það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra beini því til nefndarinnar að fara vel yfir málin.

Jafnframt er gott að búið sé að fara yfir málin varðandi brekkubobbann í Mýrdalnum með heimamönnum en það er spurning hvort komin sé á sátt líkt og hæstv. ráðherra telur. Þá er ágætt að nefndin fari vel yfir það.

Jafnframt er þarna talað um friðlýsingar eða að taka svæði inn í náttúruverndaráætlun í Skaftárhreppi. Samkvæmt mínum skilningi hefur slíkt samráð ekki skilað viðunandi samkomulagi í þeim málefnum. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur aðeins um hver staðan er þar. Um er að ræða gríðarlega stórt svæði og umfangsmikið verkefni við að verja land. Þar þarf að fara í framkvæmdir á því svæði sem mér skilst að núna sé ætlunin að friða í náttúruverndaráætluninni. Íbúar svæðisins hafa áhyggjur af því að það hafi áhrif á möguleika bæði Landgræðslunnar og þeirra framkvæmdaaðila sem þurfa að koma þar að við að verja landið með viðamiklum aðgerðum sem koma til með að hafa áhrif á ásýnd landsins.