Launakröfur á hendur Landsbanka

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 13:41:07 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

launakröfur á hendur Landsbanka.

[13:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikið rætt um siðbót og nýja Ísland á Alþingi og af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Því var reyndar ekki mikið fyrir að fara í ræðu sem var haldin áðan af einum af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. En mig langar að ræða aðeins við hæstv. félagsmálaráðherra. Ljóstrað hefur verið upp um það í þingsal að ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að raða inn fólki úr sínum röðum inn í ráðuneyti og stofnanir og á fimmta tug hafa verið ráðnir á þessu ári án auglýsingar, það er búið að upplýsa um það. Hvað með þá alla sem ráðnir voru með auglýsingu, verktaka og aðra? Það á eftir að upplýsa um það, sem verður vonandi gert.

Þá er athyglisvert að í græðgisbönkunum, sem þessir stjórnarflokkar hafa gjarnan talað um, starfa nú vinir og vandamenn ráðherra og þiggja vafalaust þokkaleg laun fyrir. Þá hefur komið fram að einn af yfirmönnum Landsbankans á græðgistíma hans er aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Umræddur aðstoðarmaður félagsmálaráðherra hefur nú gert 230 millj. kr. kröfu í þrotabú Landsbankans. Eðlilega fer maður að velta fyrir sér hve djúpt sú siðbót ristir sem stjórnarflokkarnir tala um þegar hæstv. ráðherra ákveður að ráða sér aðstoðarmann sem gerir slíka kröfu í því umhverfi sem er í dag. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann styður kröfu aðstoðarmannsins um þessar 230 millj. Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvort hann telji kröfu aðstoðarmanns síns siðferðislega rétta. Ég held að það sé rétt að ráðherrann svari því því að þetta er einu sinni sá aðstoðarmaður sem hann valdi til starfans. Mig langar jafnframt að spyrja ráðherra hvort hann telji ástæðu til að endurskoða ráðningu hans helsta ráðgjafa sem gerði slíka 230 millj. kr. kröfu í ljósi þess sem fram hefur komið. Telur ráðherrann að hér þurfi siðbót?