Sjóvarnir við Vík

Miðvikudaginn 25. nóvember 2009, kl. 14:57:19 (0)


138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sjóvarnir við Vík.

149. mál
[14:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa fyrirspurn og ráðherra fyrir svör sín. Það liggur þá fyrir hvaða upphæð við erum að tala um. Ég held að við séum öll sammála um hversu geysilega mikilvægt þetta er og hversu miklir hagsmunir eru þarna undir, að byggingar og byggðin í Vík í Mýrdal er í hættu ef ekkert verður að gert. Ég held að við hljótum að geta fundið lausn á þessu máli en það verður að segjast að manni finnst svolítið einkennilegt að upplifa það að annars vegar er hér samfylkingarráðherra og hins vegar þingflokksformaður Samfylkingarinnar að ræða um þetta mál og hvernig sé hægt að finna þessa peninga. Ég held að það hljóti að vera, ef þessi mikli vilji liggur fyrir og ég held að þetta sé eitthvað sem allir þingmenn geti tekið höndum saman um, að við leysum þetta hvort sem þetta er spurning um eitt n til eða frá.