Jarðgöng á Íslandi sem uppfylla Evrópustaðla

Miðvikudaginn 25. nóvember 2009, kl. 15:02:18 (0)


138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

jarðgöng á Íslandi sem uppfylla Evrópustaðla.

154. mál
[15:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkrar fyrirspurnir, nánar tiltekið fjórar, sem allar eru af sama meiði. Ég er að spyrja um umferðaröryggismál og ástæðan er einföld, þau eru mér mjög hugleikin. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli alltaf, ekki síst við aðstæður sem þessar, að við förum vel yfir þann þátt mála. Ég er ekki að byrja á því núna, t.d. tók ég þetta upp á þingi árið 2006 við þáverandi hæstv. samgönguráðherra og við mörg önnur tilefni. Þar var ég að vísa í sérstakt verkefni sem heitir EuroRap sem ég ætla að spyrja um á eftir. Niðurstaðan var sú að hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, sem var mikill áhugamaður um þetta málefni, setti það á laggirnar í kjölfarið og eftir því sem ég best veit erum við komin í fremstu röð hvað þá hluti varðar. Ég vonast til og hef fulla trú á því að hæstv. samgönguráðherra sé ekki síður áhugamaður um það en fyrirrennari hans í starfi, því að hér eru miklir hagsmunir á ferðinni. Umferðarslys eru t.d. afskaplega stór þáttur í slysum landsmanna eins og við þekkjum og tilfinningalegur kostnaður af umferðarslysum kemur hvergi fram í neinu bókhaldi, en við vitum að bara beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins af umferðarslysum er gríðarlegur og ég hef nú lagt fram sérstaka fyrirspurn skriflega um það sem ég á von á að fá svar við fljótlega.

Ég spyr hér um jarðgöng. Ástæðan er einföld, það skiptir afskaplega miklu máli hvernig þau eru hönnuð og hvernig þau eru gerð, það er ekki sama hvernig það er gert. Við erum með jarðgöng í landinu og höfum sömuleiðis áhuga á að byggja fleiri. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan eru fjölmörg verkefni fram undan, þannig verður það alltaf í mannheimum, og þar með talin verkefni sem snúa að samgöngum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga:

1. Hefur ráðherra látið kanna hvaða jarðgöng hér á landi uppfylla tilskipun Evrópusambandsins um öryggi vegganga nr. 2004/54?

2. Ef einhver jarðgöng uppfylla ekki Evrópustaðla, hvers vegna er það og til hvaða aðgerða verður gripið?