Vegir sem uppfylla staðla Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 25. nóvember 2009, kl. 15:34:32 (0)


138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

vegir sem uppfylla staðla Evrópusambandsins.

157. mál
[15:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta fyrirspurnin í umferðaröryggisspurningunum sem ég er með. Svörin við þessum spurningum og sú umræða sem hér fer fram hefur verið mjög góð. Ég lít svo á að hæstv. samgönguráðherra sé bandamaður okkar allra sem viljum bæta umferðaröryggismál og ég tel að við séum sammála hvað þessa hluti varðar. Hæstv. ráðherra vísaði til þess áðan að við hefðum náð árangri, slysum hefði fækkað, en mikilvægt er að við höldum vöku okkar og reynum alltaf að gera betur. Enn verða slys og einhver gæti sagt að það væri draumórakennt að tala um að reyna að koma algjörlega í veg fyrir slys, það verður örugglega aldrei hægt, en það er enginn vafi að við getum náð árangri í því að minnka mannskaða og við getum náð árangri í því að fækka slysum, en það gerist ekki af sjálfu sér og við þurfum að vinna skipulega að því. Ég lít svo á að ég eigi bandamann í hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og ég lít svo á að ég sé hér að brýna hann og halda hæstv. ráðherra við efnið og það mun ég gera áfram. Ég hef gert það frá því að ég varð þingmaður og ætla að halda því áfram.

Ég spyr núna um vegi. Í fyrsta lagi, hvaða vegir hér á landi uppfylla staðla Evrópusambandsins samkvæmt TERN (Trans European Road Network)? Í öðru lagi, stendur til að fjölga slíkum vegum?

Þeir vegir sem eiga að uppfylla þessa staðla eru hringvegurinn, Reykjanesbrautin, Þorlákshafnarvegur, vegur nr. 61 frá Ísafirði og vegur nr. 93 frá Seyðisfirði upp á Egilsstaði. Ástæðan fyrir því að þeir eiga að uppfylla þessa staðla er sú að þeir eru partur af sameiginlegu vegakerfi Evrópu sem menn hafa unnið á vettvangi Evrópusambandsins og ástæðan fyrir því að þeir eru partur af sameiginlegu vegakerfi Evrópska efnahagssvæðisins er eðlilega sú að við erum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég hef áhuga á því að vita hvernig staðan er hvað þetta varðar, hvort þeir uppfylli þessa staðla, og hvort það standi til að fjölga slíkum vegum, þ.e. með þessum stöðlum, því að sjálfsögðu getum við haft eins marga vegi og við viljum sem uppfylla þessa staðla ef það er vilji íslenskra stjórnvalda.