Fækkun héraðsdómstóla

Miðvikudaginn 25. nóvember 2009, kl. 19:17:19 (0)


138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

fækkun héraðsdómstóla.

188. mál
[19:17]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina aftur og umræðu sem um hana hafa orðið, því að ég tel að hún hafi stuðlað að því að skýra málið aðeins betur þótt kannski hafi ekki margt nýtt komið fram hér umfram það sem kom fram í 1. umr. frumvarpsins, en það er nauðsynlegt að kveða niður allan misskilning. Tilgangur frumvarpsins sem nú er til meðferðar í allsherjarnefnd, er að mínu mati að minnka kostnað við yfirbyggingu og stofnanauppbyggingu. Ég tel að ef við getum hagrætt þar eigum við að gera það. Ef hægt er að spara laun dómstjóra og bakvaktakostnað eigum við að fara út í það frekar en að spara kostnað við aðra starfsmenn dómstólanna. Ég tel að þar sem er eftir einhverju að slægjast, þótt það sé sársaukafullt, eigum við að gera það á þeim tímum sem við nú lifum með ríkisreksturinn í járnum.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Birgis Ármannssonar biðst ég afsökunar á að hafa ekki svarað henni í fyrra svari. Ég kom inn á það í fyrsta svari mínu hér við fyrirspurnum í dag að það eru skiptar skoðanir meðal dómara. Það var ekki endilega ljóst þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi en af þessu tilefni sérstaklega hef ég óskað eftir góðu samstarfi og samráði við Dómarafélag Íslands því að ég hef sagt að það var ekki tilgangurinn með frumvarpinu að valda sundrungu meðal dómara.