Tilhögun þingfundar

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 10:40:53 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra tjáð okkur að ríkisstjórnin hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri og að þau liggi ljóst fyrir. Í umræðum í fyrradag reyndi ég að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um vinkil sem er nýkominn fram í þessu máli en hæstv. fjármálaráðherra brást ókvæða við þrátt fyrir kurteislega spurningu.

Það sem mig langar til að minnast á er að hér erum við að fara í atkvæðagreiðslu um kvöldfund og jafnvel næturfund. Þetta gerðist fyrr í vikunni þar sem stjórnarþingmenn greiddu því atkvæði en hér messuðum við stjórnarandstæðingar yfir tómum sal. (Forseti hringir.) — Jú, víst komum við sjónarmiðum okkar á framfæri með hljóðupptöku þingsins, en að stjórnarliðar hlustuðu á okkar röksemdir, það var af og frá.