Tilhögun þingfundar

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 10:53:51 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er kominn 26. nóvember. (Gripið fram í: Hvað ertu að segja?) Okkar bíður mikið verkefni, að afgreiða ekki bara þau mál sem eru á dagskrá þessa fundar sem eru, fyrir utan ríkisábyrgðina vegna lántöku Tryggingarsjóðs, (Gripið fram í.) fjáraukalög, ráðstafanir í skattamálum, tekjuskattsmál o.fl. Okkar bíður það verkefni að afgreiða fjárlög, fjáraukalög, þrjú, fjögur skattafrumvörp og fjölmörg önnur mál sem tengjast forsendum fjárlaga eða eru tengd áramótum. Þetta eru mikilvæg mál og það eru mikilvægir þjóðarhagsmunir að baki því að Alþingi leysi verk sitt skilmerkilega af hendi. Þjóðin hlýtur að gera þá kröfu til Alþingis síns, að það reynist vandanum vaxið og skili því sem því er ætlað að skila og það þarf að skila til að takast á við erfiðar aðstæður í samfélagi okkar.

Nú hafa menn eytt hér upp undir hálftíma í þann einfalda hlut að greiða um það atkvæði (Gripið fram í.) hvort megi funda fram á kvöldið, (Forseti hringir.) sem að mínu mati hefði alls ekki átt að þurfa atkvæðagreiðslu um, svo sjálfsagt er það. (Gripið fram í.) Ég verð að segja við þá þingmenn sem (Gripið fram í.) kveinka sér undan því að halda fund fram á kvöld: Ekki vildi ég hafa þá með mér á sjó eða í sauðburði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)